fimmtudagur, júlí 28, 2005

Smáborgaralíf

Við Biggi erum búin að komast að því að við eigum eitt stykki geðveikan nágranna.
Það hlaut bara að vera, það hlýtur að vera allavega einn solleis í öllum götum eða fjölbýlishúsum.
Þessi býr í húsinu við hliðina á okkar húsi. Það sem kom okkur á sporið um geðveikina er smá atburður sem átti sér stað um daginn.
Þannig er að þessi gaur (sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir, köllum hann bara nágrannann) er búinn að leggja hálfan garðinn í sínu húsi -sem er þrí- eða fjórbýli- undir bílastæði sem hann á einn. Það komast tveir bílar með góðu móti fyrir á þessum fleti en nágranninn á bara einn bíl sem fer mjög vel um í þessu rúmgóða stæði. Málið er að þetta "fyrirkomulag" á bílastæði tekur annað stæði -það þriðja- frá götunni, því ef það er lagt fyrir framan þetta stæði sem er inní garðinum er búið að loka fyrir það.
Það kemur fyrir að fólk leggur stundum bílunum sínum þannig að framstuðarinn nær aðeins inná þetta pláss, en ekki samt þannig að nágranninn komist ekki inn eða út úr stæðinu sínu sem, eins þið fattið, er tvöfalt. Við Biggi höfum stundum séð eitthvað drasl inni á miðju -ónýttu- stæðinu sem ekki má leggja í, eins og t.d. bensínbrúsa eða eitthvað þannig. Ég hef nú alltaf vitað að það væri kallinn að setja eitthvað drasl til að ítreka plássið sem hann "á", en ég hef aldrei pælt neitt í því, ekki á ég neitt stæði hvort eð er. Legg bara þar sem það er laust hverju sinni og ekkert verið að velta fyrir mér hvernig bílastæðamálunum er háttað í nágrannahúsinu.
En svo er stelpa sem býr í sama húsi og ég sem er nýkomin með bílpróf og er mjög oft á bíl pabba síns. Hún á að það til að leggja stundum í stæðið sem er fyrir aftan þetta stæði sem nágranninn notar sem framlengingu á sínu stæði, þ.e.a.s. þetta fyrir framan stæðið hans (fattiði?) Við Biggi vorum að fara í göngutúr um daginn og löbbuðum því fram hjá bílnum sem stelpan er á (eða hafði lagt) og hvað haldiði að við höfum séð fyrir framan framdekkin á bílnum??? Tvær stórar naglaspítur! Með naglana að sjálfsögðu upp!. Okkar fyrstu viðbrögð eru að halda að einhverjir krakkahálvitar væru að gera einhvern djók sem engum öðrum en þeim finnst fyndið. Biggi beygði sig niður til að taka spíturnar undan bílnum þegar við heyrum "Hvað ertu að gera?"
Okkur brá alveg soldið og litum upp og stóð þar nágranninn fyrir framan okkur.
(Nú verð ég að taka það fram að við höfum aldrei talað við þennan mann, sem er um fimmtugt, einhleypur og fær mömmu sína oft í heimsókn og virðist vera mjög góður við hana).
Biggi svaraði því til að hann ætlaði að fjarlægja þessar spítur áður en illa færi. Þá spurði nágranninn hvort við værum á þessum bíl og þegar við sögðum að svo væri ekki -bað hann ekki, heldur- skipaði hann Bigga að láta spíturnar aftur niður. Biggi horfði alveg forviða á kallinn og spurði hvort hann væri ábyrgur fyrir því að láta þetta þarna. Nágranninn sagði svo vera og fannst það bara mjög skiljanlegt af sinni hálfu að kenna fólki lexíu sem væri svona drullufrekt að það héldi að það gæti lagt eins og því sýndist í annarra manna stæði. (Bíll stelpunnar var ekki í neinu af stæðunum hans). Biggi spurði hann hvort hann hefði kannski prófað að tala við stelpuna sem væri btw. sautján ára. Kallinn sá bara ekki nokkra ástæðu til þess. Svo stóð þessi kall fyrir framan okkur með þvílíkan árásarsvip að við þorðum bara ekki öðru en að leggja naglaspíturnar aftur niður og ganga í burtu. Sjitturinn!
Seinna um kvöldið sjáum við Biggi að það er búið að fjarlæga naglaspíturnar en ekki bíl stelpunar. En þá er nágranninn búinn að leggja sínum bíl þannig að hann er hálfur á garð-bílastæðinu hans og hálfur á götunni... sem þýðir að undir miðjum bílnum er gangstéttin sem enginn getur núna gengið á, það verður að taka stóran sveig fram hjá útá götuna. Mjög þægilegt eflaust fyrir fólk með t.d. barnavagna...Svo ég tala nú ekki um blinda og sjónskerta fólkið sem býr í hverfinu (mikið af því sko, við búum rétt hjá Blindrafélaginu).
Ótrúlegur kall! En það verður gaman að geta fylgst með honum og hvaða geðveiki hann tekur næst upp á.

En svo maður haldi nú aðeins áfram með smáborgarasögur;
Við hjónaleysin tókum okkur til um síðustu helgi og tókum garðinn í gegn. Ég held að ég sé ekki að ljúga neinu þegar ég held því fram að það hafi ekki verið gert í nokkur ár!
Smá varnaðarorð: Ekki vera í stuttbuxum ef þið eruð að nota sláttuorfi !!!
Ég gerði þau stóóóru mistök og því eru kálfarnir á mér ekki beint pilshæfir þessa dagana; allir útí marblettum og litlum sárum eftir litla steina og bita af rótum að skjótast með ógnarhraða í þá.
En þessar aðgerðir okkar hafa nú haft þau áhrif á liðið sem býr í húsinu okkar að nú á bara að leggjast í svaka framkvæmdir og rífa bara garðinn upp með rótum og búa til nýjan.
Það vantar ekki... maður verður greinilega að passa sig á því hvað maður gerir, það hefur meiri áhrif en maður gerir sér grein fyrir.

Enn hætt að reykja, að sjálfsögðu -varð bara aðeins að monta mig- c",)
Fyrir ykkur sem reykið en eruð alltaf að spá í að hætta:
Þið kannist við fólkið sem er fyrrverandi reykningafólk og heldur því fram að það "hafi bara hætt". Well, það er kjaftæði!!! Þetta er rosalega erfitt í nokkra daga en svo verður þetta eins og -hef ég heyrt- með barnsfæðingu; sársaukninn gleymist smátt og smátt.
Mér finnst núna að þetta hefi ekki verið neitt rosalega erfitt, en ef ég hugsa aðeins lengra man ég eftir stundunum sem ég sat heima hjá mér nær gráti að hugsa um hvurn fjandann ég væri eiginlega að leggja á mig. Þetta væri bara ekki þess virði. En svo fór ég að finna -á undrastuttum tíma- fyrir breytingum við að vakna á morgnana. Þá fór maður að finna árangur af afeitruninni og tímdi ekki að eyðileggja neitt. Samt gekk ég fyrir sjálfsblekkingu fyrstu tvær vikurnar; lofaði sjálfri mér á hverjum degi að ég mætti fá mér smók um kvöldið og þegar það kom að kvöldinu tímdi ég ekki að eyðilegjja næsta morgun. Og þannig gekk þetta bara einhvern veginn. Núna allvega er kominn mánuður og mér finnst þetta eiginlega ekkert mál lengur.
Það sem kom mér mest á óvart samt var skapið. Ég hafði alltaf haldið að ég myndi bilast í skapinu, en ég hef verið eins og engill, ég get svo svarið það! Fyrir utan sjálfsvorkun og smá viðkvæmni hef ég ekki fundið fyrir svo mikilli geðveiki -eins og bjóst hreinlega við að upplifa-!
En að sjálfsögðu hefur það hjálpað til að hafa þetta alien-dæmi í maganum, ég get nú varla reykt í laumi fyrir því... svo ég hef nú ekki haft um margt að velja.

Svo núna ættu löggan og björgunarsveitirnar að nota tækifærið á meðan ég er alien-hylki og reyki ekki og nota mig sem sporhund (tík). Annað eins lyktarskyn hef ég barsta aldrei vitað. Fann spíttlykt á löngu færi á tónleikunum góðu, Biggi má varla fá sér einn sopa af bjór þá er ég búin að þefa það uppi mörgum klukkutímum seinna og svona mætti lengi telja. Þetta hefur reyndar líka haft það í för með sér að ég hef fengið ógeð á þvílíkt mörgu matarkyns, verð bara flökurt við tilhugsunina. Get t.d. sennilega aldrei aftur á ævi minni borðað sýrðan rjóma með sveppabragði (get varla skrifað það). Hvað þá Voga-ídýfu eða Aktu-taktu hamborgara oooojj!!! En á móti er ég kooolafallin í hveitibindindinu, borða bara ristað brauð og langlokur eins og mig lystir (og kökur... hehemm).

Jæja, held þetta sé komið fínt í bili, er orðin sveitt bara á öllum skrifunum. Ég er sko komin úr æfingu.

Mæli með: Nýja Coldplay disknum, X & Y, hann er geðveikt góður!!!

1 Comments:

Anonymous Geitungahræðslupúkinn said...

oj barasta þvílíkur nágranni! Geturu ekki bara sagt honum að fara heim til sín á Klepp?

7:29 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home