fimmtudagur, júlí 28, 2005

Smáborgaralíf

Við Biggi erum búin að komast að því að við eigum eitt stykki geðveikan nágranna.
Það hlaut bara að vera, það hlýtur að vera allavega einn solleis í öllum götum eða fjölbýlishúsum.
Þessi býr í húsinu við hliðina á okkar húsi. Það sem kom okkur á sporið um geðveikina er smá atburður sem átti sér stað um daginn.
Þannig er að þessi gaur (sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir, köllum hann bara nágrannann) er búinn að leggja hálfan garðinn í sínu húsi -sem er þrí- eða fjórbýli- undir bílastæði sem hann á einn. Það komast tveir bílar með góðu móti fyrir á þessum fleti en nágranninn á bara einn bíl sem fer mjög vel um í þessu rúmgóða stæði. Málið er að þetta "fyrirkomulag" á bílastæði tekur annað stæði -það þriðja- frá götunni, því ef það er lagt fyrir framan þetta stæði sem er inní garðinum er búið að loka fyrir það.
Það kemur fyrir að fólk leggur stundum bílunum sínum þannig að framstuðarinn nær aðeins inná þetta pláss, en ekki samt þannig að nágranninn komist ekki inn eða út úr stæðinu sínu sem, eins þið fattið, er tvöfalt. Við Biggi höfum stundum séð eitthvað drasl inni á miðju -ónýttu- stæðinu sem ekki má leggja í, eins og t.d. bensínbrúsa eða eitthvað þannig. Ég hef nú alltaf vitað að það væri kallinn að setja eitthvað drasl til að ítreka plássið sem hann "á", en ég hef aldrei pælt neitt í því, ekki á ég neitt stæði hvort eð er. Legg bara þar sem það er laust hverju sinni og ekkert verið að velta fyrir mér hvernig bílastæðamálunum er háttað í nágrannahúsinu.
En svo er stelpa sem býr í sama húsi og ég sem er nýkomin með bílpróf og er mjög oft á bíl pabba síns. Hún á að það til að leggja stundum í stæðið sem er fyrir aftan þetta stæði sem nágranninn notar sem framlengingu á sínu stæði, þ.e.a.s. þetta fyrir framan stæðið hans (fattiði?) Við Biggi vorum að fara í göngutúr um daginn og löbbuðum því fram hjá bílnum sem stelpan er á (eða hafði lagt) og hvað haldiði að við höfum séð fyrir framan framdekkin á bílnum??? Tvær stórar naglaspítur! Með naglana að sjálfsögðu upp!. Okkar fyrstu viðbrögð eru að halda að einhverjir krakkahálvitar væru að gera einhvern djók sem engum öðrum en þeim finnst fyndið. Biggi beygði sig niður til að taka spíturnar undan bílnum þegar við heyrum "Hvað ertu að gera?"
Okkur brá alveg soldið og litum upp og stóð þar nágranninn fyrir framan okkur.
(Nú verð ég að taka það fram að við höfum aldrei talað við þennan mann, sem er um fimmtugt, einhleypur og fær mömmu sína oft í heimsókn og virðist vera mjög góður við hana).
Biggi svaraði því til að hann ætlaði að fjarlægja þessar spítur áður en illa færi. Þá spurði nágranninn hvort við værum á þessum bíl og þegar við sögðum að svo væri ekki -bað hann ekki, heldur- skipaði hann Bigga að láta spíturnar aftur niður. Biggi horfði alveg forviða á kallinn og spurði hvort hann væri ábyrgur fyrir því að láta þetta þarna. Nágranninn sagði svo vera og fannst það bara mjög skiljanlegt af sinni hálfu að kenna fólki lexíu sem væri svona drullufrekt að það héldi að það gæti lagt eins og því sýndist í annarra manna stæði. (Bíll stelpunnar var ekki í neinu af stæðunum hans). Biggi spurði hann hvort hann hefði kannski prófað að tala við stelpuna sem væri btw. sautján ára. Kallinn sá bara ekki nokkra ástæðu til þess. Svo stóð þessi kall fyrir framan okkur með þvílíkan árásarsvip að við þorðum bara ekki öðru en að leggja naglaspíturnar aftur niður og ganga í burtu. Sjitturinn!
Seinna um kvöldið sjáum við Biggi að það er búið að fjarlæga naglaspíturnar en ekki bíl stelpunar. En þá er nágranninn búinn að leggja sínum bíl þannig að hann er hálfur á garð-bílastæðinu hans og hálfur á götunni... sem þýðir að undir miðjum bílnum er gangstéttin sem enginn getur núna gengið á, það verður að taka stóran sveig fram hjá útá götuna. Mjög þægilegt eflaust fyrir fólk með t.d. barnavagna...Svo ég tala nú ekki um blinda og sjónskerta fólkið sem býr í hverfinu (mikið af því sko, við búum rétt hjá Blindrafélaginu).
Ótrúlegur kall! En það verður gaman að geta fylgst með honum og hvaða geðveiki hann tekur næst upp á.

En svo maður haldi nú aðeins áfram með smáborgarasögur;
Við hjónaleysin tókum okkur til um síðustu helgi og tókum garðinn í gegn. Ég held að ég sé ekki að ljúga neinu þegar ég held því fram að það hafi ekki verið gert í nokkur ár!
Smá varnaðarorð: Ekki vera í stuttbuxum ef þið eruð að nota sláttuorfi !!!
Ég gerði þau stóóóru mistök og því eru kálfarnir á mér ekki beint pilshæfir þessa dagana; allir útí marblettum og litlum sárum eftir litla steina og bita af rótum að skjótast með ógnarhraða í þá.
En þessar aðgerðir okkar hafa nú haft þau áhrif á liðið sem býr í húsinu okkar að nú á bara að leggjast í svaka framkvæmdir og rífa bara garðinn upp með rótum og búa til nýjan.
Það vantar ekki... maður verður greinilega að passa sig á því hvað maður gerir, það hefur meiri áhrif en maður gerir sér grein fyrir.

Enn hætt að reykja, að sjálfsögðu -varð bara aðeins að monta mig- c",)
Fyrir ykkur sem reykið en eruð alltaf að spá í að hætta:
Þið kannist við fólkið sem er fyrrverandi reykningafólk og heldur því fram að það "hafi bara hætt". Well, það er kjaftæði!!! Þetta er rosalega erfitt í nokkra daga en svo verður þetta eins og -hef ég heyrt- með barnsfæðingu; sársaukninn gleymist smátt og smátt.
Mér finnst núna að þetta hefi ekki verið neitt rosalega erfitt, en ef ég hugsa aðeins lengra man ég eftir stundunum sem ég sat heima hjá mér nær gráti að hugsa um hvurn fjandann ég væri eiginlega að leggja á mig. Þetta væri bara ekki þess virði. En svo fór ég að finna -á undrastuttum tíma- fyrir breytingum við að vakna á morgnana. Þá fór maður að finna árangur af afeitruninni og tímdi ekki að eyðileggja neitt. Samt gekk ég fyrir sjálfsblekkingu fyrstu tvær vikurnar; lofaði sjálfri mér á hverjum degi að ég mætti fá mér smók um kvöldið og þegar það kom að kvöldinu tímdi ég ekki að eyðilegjja næsta morgun. Og þannig gekk þetta bara einhvern veginn. Núna allvega er kominn mánuður og mér finnst þetta eiginlega ekkert mál lengur.
Það sem kom mér mest á óvart samt var skapið. Ég hafði alltaf haldið að ég myndi bilast í skapinu, en ég hef verið eins og engill, ég get svo svarið það! Fyrir utan sjálfsvorkun og smá viðkvæmni hef ég ekki fundið fyrir svo mikilli geðveiki -eins og bjóst hreinlega við að upplifa-!
En að sjálfsögðu hefur það hjálpað til að hafa þetta alien-dæmi í maganum, ég get nú varla reykt í laumi fyrir því... svo ég hef nú ekki haft um margt að velja.

Svo núna ættu löggan og björgunarsveitirnar að nota tækifærið á meðan ég er alien-hylki og reyki ekki og nota mig sem sporhund (tík). Annað eins lyktarskyn hef ég barsta aldrei vitað. Fann spíttlykt á löngu færi á tónleikunum góðu, Biggi má varla fá sér einn sopa af bjór þá er ég búin að þefa það uppi mörgum klukkutímum seinna og svona mætti lengi telja. Þetta hefur reyndar líka haft það í för með sér að ég hef fengið ógeð á þvílíkt mörgu matarkyns, verð bara flökurt við tilhugsunina. Get t.d. sennilega aldrei aftur á ævi minni borðað sýrðan rjóma með sveppabragði (get varla skrifað það). Hvað þá Voga-ídýfu eða Aktu-taktu hamborgara oooojj!!! En á móti er ég kooolafallin í hveitibindindinu, borða bara ristað brauð og langlokur eins og mig lystir (og kökur... hehemm).

Jæja, held þetta sé komið fínt í bili, er orðin sveitt bara á öllum skrifunum. Ég er sko komin úr æfingu.

Mæli með: Nýja Coldplay disknum, X & Y, hann er geðveikt góður!!!

miðvikudagur, júlí 27, 2005

Innhverf með köku í ofninum


Jæja.
Þá er maður orðinn innhverfur með köku í ofninum.
Segi ekki meir eins og er nema það eru komnar rúmlega tólf vikur.

föstudagur, júlí 15, 2005

Myndir af aðgerðinniÞetta eru ekkert sérstaklega góðar myndir en allavega...

Þetta er s.s. einn skurðurinn á hálsinum fyrir saumatöku.

Þetta er áhaldið góða sem læknirinn gaf mér í "verðlaun" fyrir að hafa verið svo dugleg að hjálpa í aðgerðinni... prófessjónal skurðhnífur.

Hérna er svo verið að taka saumana... sjáiði handbragðið!

Þetta verður ekki gert meira fagmannlega...

Svo er hérna sárið eftir tökuna. Ótrúlega fallegt, finnst ykkur ekki?

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Draumfarir og veðurnördar

Dagur # 15

Sko, talandi um að vera í beinu sambandi við almættið!!!
Það er komið þetta splendit veður, mar! Sól og hiti og logn og bara allt! Mmmm.
Skítt með einhver smáatriði eins og ég sé föst inni í allan dag... Fer bara út í "bíltúr" og kem voða rjóð til baka.
Samt skildist mér á veðurfrétta-andskotunum að þetta ætti ekki að endast lengi, það ætti jafnvel að byrja rigna á morgun...
Ojæja, sjáum til með það, óþarfi að rústa þessum degi í svekkelsi yfir morgundeginum.
(vá, hvað þetta var spekingslegt! pjúffh!)

Nördar eru með því skemmtilegasta og áhugaverðasta sem ég veit. Alvöru idjótanördar sem lifa og hrærast í sínu áhugamáli, vinna oftast við það, eru bara brilljant manneskjur.
Sá í sjónvarpsþættinum hans Gumma Steingríms. um daginn viðtal við (minnir hann heitir) Harald veðurfræðing. Þessi sem er stundum á rúv með veðurfréttirnar og segir alltaf; "nú-eee, eeeen-eee, ooog-eee", þið fattið (er það ekki annars?). Hann var spurður spurninga eins og hvar eru stökustaðir. Þetta er snilldarspurning, stökustaðir...
Það er s.s. sumstaðar, það var svarið sem hann gaf. Svo spurði sjónvarpsgaurinn hann hvort það væru einhverjir veðurfræðingar sem væru í uppáhaldi, einhverjir sem væru sérstaklega klárir. Honum Haraldi fannst þetta mjög fyndin spurning en sagði svo að hann Borgþór heitinn hefði haft mjög svo persónlegan stíl og þorað að ganga lengra í sínum skíringamyndum en aðrir veðurfræðingar þorðu. Hann sagði þetta í fullri alvöru og sýndi alveg lotningu á meðan hann talaði um látinn kollega sinn.
Það er ekki til nóg af svona fólki, ég get svo svarið það! Kannski eru bara allir alvöru nördarnir alltaf lokaðir einhversstaðar inni að sinna sínu svo maður verður aldrei var við þá... líklega.

Mig dreymdi stórfurðulegan draum í nótt, svo ekki sé nú meira sagt.
Í draumnum var ég að halda stúdentsveisluna mína (ég er ekkert stúdent...) og til að hafa daginn sem bestan vildi ég greinilega ekki þurfa að hafa áhyggjur af hárinu á mér. Þannig ég fékk hárið hennar Völu Matt. að láni... svakalega ánægð með það. Svo þegar hún kom daginn eftir til að ná í hárið sitt (hún var samt ekki sköllótt og þetta var ekki hárkolla, stórskrítið) vildi ég ekki skila því og bjó til eitthvað tilefni til að lenda í riflildi við hana og vonaðist til þess að hún færi bara í fílu og gleymdi hárinu. Það sem ég tók sérstaklega eftir með hárið sem ég var með að láni var að það var soldið brennt í rótina, sennilega vegna ofnotkunar á hárblásara.
Er einhver sem getur sagt mér hvort þessi draumur merkir eitthvað eða ætti ég bara að fara í rannsókn? (ekkert nauðsynlegt að segja eitthvað sem ég er augljóslega að bjóða upp á með seinni athugasemdinni...).

Jæja, sumarnir teknir í kvöld, jess!!!
Tek myndir og set á síðuna á morgun.

Nú er ég farin í "bíltúr".

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Sól takk!

Dagur # 14. (ekki eitt einasta svindl - ekki eitt!!! íííhaaa)

Var í þessu að heyra fréttir í útvarpinu á Bylgjunni. Það er einhver persóna greinilega nýbyrjuð á fréttastofunni, rödd sem ég kannaðist ekki við. Það sem gefur mér ástæðu fyrir því að minnast svona sérstaklega á þetta er að það er ekki séns í helvíti að gera sér grein fyrir því hvort þetta er karl- eða kvenmannsrödd. Ekki séns! Mér fannst helst eins og þetta væri rödd í manneskju sem væri búin að fara í kynskiptiaðgerð, og þá manni sem breytt var í konu frekar en hitt. Soldið skrítnar svona raddir, vitiði ekki hvað ég er að meina?

Einhverntíma lofaði ég sjálfri mér að ég myndi aldrei tala um veðrið á þessu bloggi mínu... (right)
Get ekki ekki gert það (tvöföld neitun) lengur. Það er búið að vera ótrúlega glatað veður núna í margar vikur samfleytt. Frá sautjándanum hefur sólin bara ekki drullað sér fyrir framan skýin.
Panta hér með eitt stykki solleis, takk! Og ekki undir tuttugu stiga hita, takk! Og þá kannski logn í leiðinni, takk! Má ekki koma seinna en á föstudaginn og verður að vara í a.m.k. tvær vikur, takk!

Jæja, þá á (ég) að taka saumana úr tveimur skurðum á Bigga á morgun.
Þrátt fyrir dökkan hárlit frá náttúrunnar hendi, get ég samt verið ótrúlega mikil ljóska stundum.
Kannski öll aflitunin á sínum tíma hafi haft áhrif á heilavirknina.
En allavega...Var að fatta það í gærkvöldi að það er þessi líka svaka fína myndavél á nýja símanum mínum. Kannski maður bara noti hana.
Var að minnast á þessa hugmynd við hann Bigga í gær, s.s. að taka myndir af prósídjurinu, held honum hafi ekkert litist á það... Ojæja, hann um það. Hann getur sætt sig við það og verið bara rólegur með það eða farið í fílu yfir því, hans vandamál í rauninni því myndirnar verða teknar.
Bwaaahahahahahaha.

mánudagur, júlí 11, 2005

Vandamálahandbók bjórdrykkjumannsins

Barasta varð að setja þetta inn. Grímslan var að senda mér þetta og ég er búin að veltast um af hlátri. Ákvað því að deila þessu með ykkur, elshkurnar mínar.

-------------------000-------------------

Vandamál: Drykkjan veitir enga ánægju bjórinn er óvenjulega bragðlaus, fölur og tær.
Orsök: Glasið er tómt.
Viðbrögð: Fáðu einhvern til að kaupa annan bjór handa þér.

Vandamál: Drykkjan veitir enga ánægju, bjórinn er óvenjulega bragðlaus, fremri hlutinn á þér er blautur.
Orsök: Munnurinn hefur ekki verið opinn meðan þú varst að drekka EÐA glasið hefur verið sett upp við rangan andlitshluta.
Viðbrögð: Kauptu annan bjór og æfðu þig fyrir framan spegil. Drekktu eins marga og þörf er á til að byggja upp fullkomna tækni.

Vandamál: Fætur blautir og kaldir.
Orsök: Glasinu hefur verið haldið á hvolfi.
Viðbrögð: Snúðu glasinu við þannig að "opni" endinn snúi upp.

Vandamál: Fætur blautir og heitir.
Orsök: Slæm stjórn á þvagblöðrunni.
Viðbrögð: Labbaðu upp að næsta hundi, og kvartaðu svo við eigandann að hundurinn sé illa upp alinn. Krefstu þess að fá bjór í skaðabætur.

Vandamál: Gólfið er þokukennt.
Orsök: Þú ert að horfa í gegnum botninn á tómu glasi.
Viðbrögð: Fáðu einhvern til að kaupa annan bjór handa þér.

Vandamál: Gólfið sveiflast.
Orsök: Of mikil ókyrrð í loftinu, sennilega vegna úrslita sem hafa orðið í einhverju spili á barnum.
Viðbrögð: Settu kústskaft niður bakhlutann á skyrtunni.

Vandamál: Gólfið hreyfist.
Orsök: Það er verið að bera þig út.
Viðbrögð: Reyndu að komast að því hvort að það sé verið að fara með þig á annan bar. Ef svo er ekki, öskraðu þá að það sé verið að ræna þér.

Vandamál: Veggurinn á móti þér er þakinn loftklæðningu og ljósaperum.
Orsök: Þú hefur dottið aftur fyrir þig.
Viðbrögð: Ef glasið þitt er fullt og enginn stendur á hendinni á þér, vertu þá bara kyrr á gólfinu og haltu áfram að drekka. Ef ekki, fáðu þá einhvern til að hjálpa þér að standa upp og haltu þér vel í barborðið.

Vandamál: Allt er orðið dimmt, munnurinn á þér er fullur af sígarettustubbum.
Orsök: Þú hefur dottið fram fyrir þig.
Viðbrögð: Sjá fyrir ofan.

Vandamál: Allt er orðið dimmt.
Orsök: Það er búið að loka barnum.
Viðbrögð: Hræðsla!!!!!

Vandamál: Þú vaknar og finnur að rúmið þitt er kalt, hart og blautt; þú sérð ekkert inni í svefnherberginu.
Orsök: Þú hefur sofnað í göturæsinu.
Viðbrögð: Kíktu á klukkuna til að gá hvort að það sé búið að opna barina. Ef ekki, reyndu þá að sofa aðeins lengur.

---------------------000-----------------------

Takk fyrir það!

(dagur # 12)

Blettalæknir

Sama dag og tónleikarnir góðu voru, fór ég með Bigga til lýtalæknis.
Það þurfti nú ekki að lappa mikið upp á hann en læknirinn þorði ekki öðru en að taka nokkra fæðingabletti af honum.
Og ég fékk að horfa! Oooohh, mér finnst svona svo gaman.
Hjúkkan spurði mig fyrst hvort ég væri að koma með Bigga inn svona honum til halds og trausts, ég sagði nei...
Þá spurði hún mig hvort ég væri í hjúkkunámi og þegar ég neitaði því líka hætti hún að spyrja en horfði voðalega lengi á mig með augnaráði sem ég kunni ekki að ráða í. Hún hefur örugglega ekki þorað að spyrja frekar, vissi ekki hvert svarið kynni að verða. Stundum er betra að þegja bara.
En eina ástæðan fyrir því að ég vildi vera með inni á stofunni var bara helber forvitni, ekkert annað.
Þetta er miklu meira dæmi en ég hélt, að taka svona fæðingabletti.
Það er sko ekki nóg að brenna (frysta) þá af eins og svo margir vilja halda. Nei, það er í rauninni stórhættulegt vildi læknirinn meina. Það eru næstum 100% líkur á því að það séu skildar frumur eftir í blettnum og ef það er illkynja fattast það ekki fyrr en fólk er bara nánast komið í gröfina.
Ónei! Það þarf að skera rosalega stórt stykki af húðinni til að vera viss um að allt fari, og þá meina ég stórt! Það er skorið allan hringinn í kringum blettinn (nottla), svo er gripið með töng um hann og hann tosaður rosalega langt upp og þá er skorið af alveg lengst ofaní húðina. Það þurfti að fjarlæga einn blett af bringunni hans Bigga og áður gatið var saumað saman var ég komin með andlitið ofan í sárið (við litla hrifningu hjúkkunnar, ég var ekki með maska sko...), ég sá eitthvað gult og skrítið sko. Mér var tjáð að þetta væri fitulagið! Það var s.s. búið að skera í gegn um öll húðlögin. Ef ég (eða læknirinn) hefði farið með eitthvað áhald og skafað þetta fitulag í burtu hefði ég (eða læknirinn) barasta verið komin ofan á vöðvann. Ótrúlegur andskoti.
Svo var ég eitthvað að spyrja lækninn spjörunum úr (eða þannig) í sambandi við þessa bletti sem eru framan í mér. Er s.s. með dökka bletti hér og þar í andlitinu sem eru þess valdandi að ég lít alltaf út fyrir að vera flekkótt. Hann sagði að það væri voðalega lítið hægt að gera nema fara bara í leiser... Eða bara vera með kamóflas, eins þessi ágæti læknir orðaði það svo snilldarlega og átti þá örugglega við meiköpp.
En svo þegar hann fór að grafast um fyrir ástæðunni fyrir þessum blettum mínum og ég sagði honum frá tanórexíunni minni, virtist hann annaðhvort vorkenna mér eða missa eitthvað álit á mér, átta mig ekki á hvort var.
Sem er í rauninni mjög furðulegt því sólbrúnni mann hef ég sjaldan eða aldrei séð með berum augum um ævina. Ég hef kannski misskilið þetta augnaráð hans svona allsvakalega; hann hefur kannski verið að sýna mér samkennd...
En ég fékk verðlaun; prófessjónal skurðhníf.
Ég á sko að fjarlæga saumana af Bigga, samtals 15 spor.
Ég er að deyja úr tilhlökkun og Biggi er að deyja úr kvíða. Held að hann treysti mér ekki í þetta verkefni. En hann um það, ég geri þetta hvort sem honum líkar betur eða ver.
Muuaahahahahahaha.

sunnudagur, júlí 10, 2005

Trendsett

Dagur # 11

Uppskrift að súpermódelútliti dauðans:
Farið að sofa með allt meiköppið frá deginum áður enn á andlitinu og reynið að passa upp á að nota ekki vatnsheldan maskara. Setjið spennur í toppinn á hárinu. Ekki sofa í minna en tíu klukkustundir.
Ef þið farið nákvæmlega eftir þessum leiðbeiningum, getið þið bókað að þið vaknið með ótrúlega... öðruvísi hárgreiðslu og ef þið farið út án þess að breyta neinu gætuð þið annaðhvort 1) orðið trendsettarar í nýju lúkki sem kennt er við pandabjörns-lúkk eða 2) fengið rosalega mikla athygli.

S.s. prófaði þetta sjálf. Vaknaði fyrir nokkrum klst. og er enn í náttbuxunum með spennurnar í hárinu og pandabjörns-lúkkið er í hávegum haft.
Biggi vakti upp hjá mér löngun í vöfflur áðan (bara með því að minnast á að baka solleis, ekkert dónó í gangi sko) og nú er ég alvarlega að spá í að fara út í búð til að kaupa það sem vantar í solleis góðgæti. Er þá pælingin að fara án þess að breyta neinu í sambandi við útlitið.

Þetta var svo helvíti þægilegt þegar búðin var í tuttuguogsjö skrefa (taldi það) fjarlægð frá hreiðrinu. Þessi búð lagði upp laupana bara fyrir sirka viku síðan. Ég virkilega fór þangað í náttbuxunum ef ég þurfti að fara að versla. Bigga fannst það ekki sniðugt en hey! tekur lengri tíma að skipta um buxur en að fara bara yfir. Vona bara að búðin hafi ekki farið á hausinn vegna náttbuxnanna minna... fólk hafi séð mig í múnderingunni og ekki þorað að koma aftur á þennan stað sem tekur við pengingum fólks sem minna má sín.

Núna er hann Biggi söngstjarna að taka upp söng við nýju lögin sem hann og (önnur) hljómsveitin er að semja. Hann er að gera þetta hérna heima, inni í stofu as we speak. Það er soldið fyndið að vera vitni að þessu; maður heyrir ekkert í tónlistinni sjálfri, hún er í heyrnatólunum á eyrunum á söngstjörnunni þannig maður heyrir ekkert nema röddina sem hljómar soldið furðulega svona ekki í neinu samhengi. En svo er þetta allt öðruvísi þegar maður heyrir útkomuna.
Þá er þetta bara soldið flott.

Vell, þá er sígólöngunin farin að segja til sín. Bjóst við því sitjandi við tölvuna.
Hætt, farin, adios.

föstudagur, júlí 08, 2005

Gugnaði

Ég gaaat þetta ekki lengur!! Gugnaði algjörlega. Er s.s. búin að breyta minnisfærslunni "góðu". Það var eiginlega ekki hægt annað, ég hef ekki getað farið inn á bloggerinn til að skrifa því þá þurfti ég að rekast á ófögnuðinn. Líður betur. Púff!!

Dagur # fokkings 9 !!!!!!!!!
Þetta er búið að vera miklu erfiðaðra en ég hélt að myndi verða, en það er engin ómerk klisja sem segir að þetta lagist með tímanum. Ég hef ekki svindlað í eitt einasta skipti, EKKI EITT!!!
Púff, ég er ekki lítið stolt af mér. Öll pepp vel þegin samt ;-)

Tónleikarnir á þriðjudaginn s.l. (með Queens of the Stone Age og Foo Fighters) voru snilld!
Ég náði að halda rænu allan tímann, sem er nú bara brilljant eitt og sér. En ég var farin að skella upp úr eins geðsjúklingur þegar Queens voru á næstsíðasta (seinasta) laginu sínu, af einskærri gleði. Josh Homme gat alveg verið meira krádplíser en var samt æði. Grohl-inn var nottla (og er) krádplíser dauðans. Náði að fá mig til að, ekki syngja, heldur öskra með öllum lögunum sem ég þekki með Foo, og þau eru miklu fleiri en ég gerði mér grein fyrir.
Ohhh, þetta var svooo gaman.

Skruddan var eitthvað að kvarta yfir sándinu en ég er farin að halda að kenningin með ora-dósina eigi við rök að styðjast... en þá bara í hennar tilfelli því hún er eina manneskjan sem ég hef heyrt vera kvarta yfir þessum tónleikum.
Er með tillögu; ættum við að fara í eyrnavax-meðferð saman? Mér hefur gegt lengi langað í solleis og ég held að þú hefðir mjööög gott af þesskonar meðferð. Með?

Held ég láti þetta duga í bili, kannski ég nenni að fara í tölvu um helgina og dunda mér við skriftir. Það er bara soldið erfitt að vera lengi við tölvuna heima því ég VAR vön að reykja svo mikið þegar ég sat við hana. Enn eitt obbstikalið til að yfirstíga, en það hefur nú allt gengið (vel) hingað til.

föstudagur, júlí 01, 2005

Roðn...

Dagur #2.


Je minn eini!!!
Ég skammast mín ekkert smá núna, nýbúin að titla sjálfa mig sem íslensku-amatör og égveitekkihvaðoghvað...
Ég verð að viðurkenna að það var mjög freistandi að fara inn í síðustu færslu og breyta öllum stafsetningarvillunum, en það væri nú að svindla... er það ekki?

(það skilja allir hvað ég á við, er það ekki? minni - mynni)