fimmtudagur, júní 30, 2005

Minni hvað?

Til hamingju ég sjálf! (dagur #1 sem fyrrverandi reykingamaður).

Ok. Þetta með minnið er nú orðið soldið svakalegt.
Í morgun datt mér eitthvað voða fyndið í hug, hugsaði með mér að ég þyrfti að blogga um það en gerði mér svo grein fyrir því að sennilega væri ég búin að gleyma því þegar ég loksins myndi setjast fyrir framan tölvuna (sem ég og gerði). Þá fékk ég aðra hugmynd, sem ég hef reyndar oft fengið, man það alltaf þegar ég man hugmyndina; "já, alveg rétt". Nú er sú hugmynd líka farin úr kollinum... í bili.

Ég er alvarlega að spá í að fara stunda rannsóknir á virkni skammtíma- og langtímaminnis (var ekki til einhver þriðja tegundin af minni? finnst eins og ég hafi einhverntíma heyrt eitthvað um það...). En þá þyrfti ég sko að fá mér annað hvort diktafón eða bara einkaritara. Hrikalegt ef maður væri að stunda svaka rannskóknir á minni og myndi svo gleyma öllum niðurstöðum jafnóðum.

Það er orðið öfugsnúið.
(Svo er orðið "minni" líka farið að hljóma furðulega þegar það er farið að tönglast á því, og er ekki öruglega ypsilon? muna - mynni... held það).

Er enn að fá afmælisgjafir.
Fékk pakka frá Englandinu í gær, frá Sylvíu & co. Geðveikt flott pils og mussu. Þúsund þakkir!!!

Fyndið nafn á útvarpsþætti: Við dauðans dyr.
Heyri kynninguna fyrir mér:
"Dagskrágerðarmaðurinn Jón Hafliðason ferðast á milli öldrunastofnanna út um allt land. Ekki missa af þættinum Við dauðans dyr alla laugardaga á Rás2 í sumar."

miðvikudagur, júní 29, 2005

Stelisteli

Rakst á þetta á netinu og fannst alveg tilvalið að stela þessu þar sem ég er sjálf-yfirlýstur raunveruleikaþáttafíkill.

--------0000---------

Fyrst sæki ég um að komast að í þættinum You are what you eat og kemst þá að því að matarræðið er snarbilað, en eftir að dr. Gillian fer þá held ég samt bara áfram að éta og fitna meira. Þá fer ég í megrunarkeppnina The Biggest Looser og næ af mér nokkrum kílóum. Nú til að fá final touchið á þetta þá fer ég í The Swan og fer í nokkrar lýtaaðgerðir og fitusog, ekkiveitir af... en í lokaþættinum þá kemst ég ekki áfram í fegurðarsamkeppni the Swan, þannig að þetta hefur ekki virkað alveg.
Þá fer ég í Extreme Makeover og læt taka mig ærlega í gegn, skipti bara um andlit og sýg alla fitu úr líkamanum.

Þá er ég heldur betur orðin flott og fer í Americas Next Top Model þáttinn og geri gott þar... en tapa.
Nú er ég orðin soldið fúl og einmana, á engan kall nebblega. Best að fara í Bachelorette og ná mér í einn ríkan og myndarlegan. Geri það, en þegar þáttaröðin og það er búið, vantar einhverja spennu í sambandið, þannig að við förum í Temptation Island... en þar endar það með að við hættum saman því við héldum bæði framhjá. Þá langar mig bara að vera dáldið sjálfstæð og verða rík...

Þannig að ég fer í Survivor, þrauka alveg í 36 daga en lendi í 3. sæti ohhh ég fæ ekki einu sinni 100 þús dollara... fer heim, alveg í rusli. En ég er ennþá sæt eftir lýtaaðgerðirnar og sílíkonbrjóstin hanga ennþá uppi... og þar sem mig langar aftur í kærasta, þá skrái ég mig í Djúpu laugina... næ mér þar í einhvern lúða sem býr í ljótri íbúð í Fellunum og er frekar subbulegur. En það er allt í lagi, ég hringi bara í vini mína í Queer eye for the Straight Guy og þeir koma og henda manninum mínum í klippingu og kaupa ný föt á hann, rídekkorreita svo íbúðina, allt voða flott og hann biður mig um að giftast sér í lok þáttarins, sem ég geri.

Við förum þá auðvitað með brúðkaupið í Brúðkaupsþáttinn Já og vinnum svo ferð í Karabíska hafið, voða rómó. En á skemmtiferðaskipinu þá verð ég ólétt... eignast svo krakka og eftir 2 ár er krakkinn farinn að stjórna öllu, þannig að ég hringi í The SuperNanny og fæ hana til að kenna okkur að ala upp krakkann og láta hann ekki ráða öllu.

Nú er allt komið í drasl aftur... Þannig að ég hringi bara í Heiðar vin minn snyrti og fæ hann að koma með þáttinn Allt í drasli og taka til... vá hvað það verður allt fínt hjá okkur! Þá er nú kominn tími til að hringja í Völu og við komum í Innlit Útlit, en við þurfum svo að stækka við okkur því að það er annað barn á leiðinni, þannig að við förum bara með íbúðina í þáttinn Allt undir einu þaki, seljum hana og kaupum stærri.

Árin líða og þetta endar allt með því að ég er búin að skilja við kallinn sem hélt framhjá mér, lýtaaðgerðirnar sem voru gerðar fyrir 15 árum komnar í klessu, ég er ljót, feit, einstæð 2ja barna móðir sem á ekki neitt... þannig að ég fer bara í Fólk með Sirrý og væli yfir þessu öllu saman!

---------0000----------

Snilld!

Raftækjaofbeldi

Jæja...
Geislaspilarahelvítið hrökk aftur í gang eftir viðgerð sem kennd er við Rússland.
Notaði samt ekki aðferðina sem Biggi stakk upp á um daginn; að skalla tækið... held að sú aðferð gæti alveg orðið til þess að maður myndi meiða sig og jafnvel þannig það sæi á manni.
Gæti samt hljómað fyndið að þurfa útskýra langan, láréttan marblett á enninu.

En núna finnst mér ég sjálf vera heldur djörf; er byrjuð að spila diskinn minn aftur í staðinn fyrir að kippa honum út úr tækinu áður en það gæti tekið upp á því að klikka aftur og kannski éta diskinn endanlega.

En ég er búin að telja sjálfri mér í trú um það að spilaraandskotinn sé bara hreinlega hræddur við mig núna eftir að ég sýndi fram á að ég er sko fullfær til að beita ofbeldi ef svo ber undir.
Það væri óskandi að raftæki gætu átt samskipti og þessi geislaspilari myndi vara öll hin raftækin, sem ég nota dagsdaglega, við mér. Þá myndu aldrei nein tæki í kringum mig voga sér að fara í frí eða bila. En geislaspilarinn í hvítu druslunni er samt það þrjóskasta tæki sem ég hef nokkurntíma átt; hann virkar algjörlega eftir eiginn geðþótta og ég verð alltaf meira og meira staðföst á þeirri skoðun minni að hann sé með sjálfstæðan vilja.

"Heimskur hlær að eigin fyndni"
Þetta er það heimskulegasta orðatiltæki sem samið hefur verið.
Hver fílar ekki sinn eiginn húmor???
Ég á nú reyndar ekki heiðurinn á þessari pælingu heldur hann Biggi. En því meira sem ég hugsa um þetta sé hvað þetta er í rauninni vitlaust.
Ef við erum eitthvað að misskilja meininguna á þessu orðatiltæki, endilega látið mig vita.

Raunveruleikaþættir...
Nú eru tveir í viðbót sem ég "eiginlega" komin á bólakaf í.
The Contender er bara svaka fínn þáttur, Sly Stallone bara alveg að gera sig í þessu starfi og ég er í fyrsta sinn að horfa á hnefaleikabardaga af áhuga og spenningi. Sem er nú líka farið að sýna sig í því að ég er farin að beita raftækin ofbeldi...
Ég gerði heiðarlega tilraun til að vera box-böff fyrir nokkrum árum þegar Sýn var að byrja vera með boxið. Prinsinn, de la Hoya og þessir gaurar voru það stærsta á þeim tíma og það var svaka hæp í gangi. Ég gafst fljótlega upp á að reyna fylgjst með þessu, það veitti mér bara ekki nægilega mikla ánægju að horfa upp á fólk reyna berja hvort annað í spað - inn í ferningi sem er kallaður hringur...
- hef aldrei alminnilega náð því heldur. Er einhver sem veit ásæðuna fyrir þessu?
Hinn þátturinn er The Biggest Looser. Þar keppist offeitt fólk um það hver getur látið kílóin fjúka sem hraðast af. Þetta er einn af þessum þáttum sem lágmenningin drýpur af, en samt er maður að horfa á þetta. Það eru einmitt svona þættir sem ég á til að sogast inní og vera hneykslast á sjálfri mér fyrir að horfa á þá. Þessir þættir eru líka svo ógeðslega amerískir að það hálfa væri sko fullmikið, fyndnir þessir Kanar.

þriðjudagur, júní 28, 2005

Döööhh

Alltaf er fattarinn hjá mér jafn stuttur...
Ef ég hefði drullast til að vera meira meðvituð um fljótfærnina mína og lesið aðeins lengur á Pönkarablogginu hefði ég að sjálfsögðu endað með því að koma auga á hið augljósa:

Endilega kíkið á þetta

(er alveg að velta því fyrir mér hvort maður ætti að breyta til: Vaðall í Blogggyðja...)

Þrír í röð

Eins og flestir sem þekkja mig vita er ég fag-amatör þegar kemur að íslenskri tungu.
Stórkostlegt tungumál, ef rétt er með farið.

Það er einkum tvennt sem hefur brunnið á mér undanfarin misseri í sambandi við viss orð.
Annars vegar eru það orð sem innihalda tvö ell í röð, sbr. grilla, villa, allir, kallar o.s.frv.
Hinsvegar eru það orð sem innihalda sama bókstafinn þrisvar í röð, sbr. rasssíður, hassstautur (er alltaf að muna orð sem falla undir þessa katagóríu en þau gleymast jafnóðum aftur, hef oft hugsað diktafóns-hugsunina þegar svo ber undir).
Rakst á einni bloggsíðunni á þessa upptalningu sem er frá árinu 1968:

Að abbbaða - Baða mann gegn vilja sínum.
Bummmáll - með suðandi málróm.
Dogggjarn - gjarn á að rísa upp við dogg.
Gubbbali - stórt uppsöluskrín.
Lakkklár - slunginn við að lakka.
Kvartetttækur - hæfur til að syngja með kvartett, eða að vera undirleikari hjá tvöföldum kvartett.
Mannnjálgur - manndjöfull, mannkleppur.
Nabbblár - blár á höndum af því að setja munstur í leður.
Prógrammmæltur - líkt máli farinn og höfundar kvikmyndaprógramma.
Rasssár smekkkarl - smekkvíst gamalmenni.
TASSsamur - fylgist með fréttum frá Sovétríkjunum.
Vafffúll - leiður yfir að heita nafni sem byrjar á vaffi.
Þunnnefja ætttogi - ættarhöfuð.

Þeir sem þetta tóku saman (Kristján Eldjárn og einhverannargaur) hafa meira að segja verið svo klárir að gefa þessari tegund orða nafn; radddálkar.

Gaman að þessu.

Orðin sem innihalda tvö ell í röð er eitthvað sem ég kem að seinna, hef soldið meira um það að segja sko...

Mál málanna

Oooohhh, hvað mér finnst gaman þegar allt er á suðupunkti í þjóðfélaginu vegna einhvers máls sem allir virðast hafa skoðun á. Sumir hafa ekki bara sína skoðun á málinu heldur eru bókstaflega að fara á límingunum yfir því.
Ég hef alveg mínar skoðanir á þessum málum eins og flestir aðrir.

Í fyrra var það fjölmiðlafrumvarpið sem átti hug og hjörtu þjóðarinnar í nokkra daga.
Talandi um það: Er fólkið sem var svo á móti þessu frumvarpi enn sömu skoðunar?

Svo var það Bobby Fisher... það er nú alveg mál út af fyrir sig sem ég á örugglega eftir að taka upp seinna. Ég hef mjög sterkar skoðanir á þeirri vitleysunni.

Núna er það Bubbi vs. 365. Mér hefur alltaf fundist hann Eiríkur Jónsson (sem, eins og örugglega allir vita, er ritstjóri Hér og nú-blaðsins se 365 gefur út og málið snýst um) alveg frábær gaur. Sá hann í Kastljósinu í gærkveldi (missti því miður af honum í Ísl. í dag), greyið að reyna réttlæta vinnubrögðin sín fyrir kollegum sínum. Ég er nú sjálf sossum sammála megninu af þjóðinni sem og kollegum hans Eiríks, en ég gat nú samt ekki annað en verið á hans bandi eiginlega bara vegna þess hvernig þáttastjórnendurnir voru við hann. Á fólk sem stjórnar umræðuþætti í sjónvarpi (eða hvaða fjölmiðli sem er, ef því er að skipta) ekki að vera algjörlega hlutlaust út á við? Mér er nokk sama um persónlegar skoðanir þessa fólks sem stjórnar þáttunum, ef ég á að segja alveg eins og er. Ef þessu fólki finnst það hafa eitthvað merkilegt til málanna að leggja, á það bara að koma sér í viðtal annarsstaðar en í sínum eigin þætti.
Það svoleiðis skein úr attitjúdinu hjá þessari stelpu sem er í Kastljósinu (get aldrei munað hvað hún heitir, anyone?) hvað henni mislíkar vinnubrögð Eiríks. Spurði hann ekki einni einustu spurningar (eða hana Helgu á Talstöðinni) sem gaf honum færi á að segja öðru vísi frá sinni skoðun nema í blússandi vörn.

Höfum það á hreinu að ég alfarið á móti þessari stefnu sem virðist vera byrjuð að myndast í íslenskum fjölmiðlum, þessi s.k. gula pressa.
Veit vel að svona blaðamennska hefur tíðkast í fjöldamörg ár út í hinum stóra heim.
En það er nákvæmlega þarna sem ég vil eindregið að við Íslendingar höldum okkar sérstöðu:
1) Ekki að búa til "frægt" fólk upp úr ekki neinu og þegar virkilega frægt fólk kemur hingað til lands eigum við að láta það í friði!
2) Þjóðin okkar hefur verið þekkt fyrir það meðal fræga og ríka fólksins út í heimi hvað við erum kurteis og sjáum sóma okkar í því að láta fólk, sem við þekkjum ekki persónulega, í friði!
(Nema nottla þegar við erum blindhaugafull í miðbænum þá þekkjum við alla og heilsum öllum og erum svo búin að "gleyma" því daginn eftir hvað við eigum það til að vera úberkammó).
Nú er þetta tvennt í bráðri hættu vegna þessarar gulu pressu-(ó)menningu. Við eigum orðið fullt af fólki sem er frægt fyrir ekki neitt, sbr. Fjölni Þorgeirs. Svo ef fólk hefur gert eitthvað til að geta kallað sig frægt upp á íslenskan máta, sbr. Bubbi, er það allt í einu orðið löglegt skotmark fjölmiðlanna. Ekki bara Bubbi sjálfur heldur hefur öll fjölskyldan hans "unnið" sér það inn að vera orðin matur fyrir gulu pressuna.
Eitthvað segir mér að þetta sé aðeins byrjunin.
Eins þegar sá orðrómur komst á kreik um daginn að David Beckham (rétt skrifað?) átti að hafa komið hingað til lands, fóru íslenskir fjölmiðlar hamförum í að reyna hafa upp á manninum. Það voru daglega fréttir af því í blöðunum að maðurinn væri ekki enn fundinn. Ég hef séð minna fjallað um leit á týndu fólki upp á fjöllum eftir að hafa verið týnt í marga sólahringa að vetri til.
Af hverju er þetta orðið svona??? Hvar endar þetta???

Diskurinn enn fastur í helvítisfokkingsgeislaspilaradraslinu!!!

mánudagur, júní 27, 2005

Heilagur skítur

Ég get svo svarið það!
Almættið tekur stundum mark á mér svo um er ekki að villast.

Ég minntist á það fyrr í dag að nýi Queens of the Stone Age - diskurinn yrði í geislaspilaranum fram að tónleikum.
Jamm og já, hann verður þar!

Helvítis geislaspilaraóþverradraslið bilaði og diskurinn er fastur í tækinu og vill ekki einu sinni spilast!!!
Ég get ekki einu sinni tekið hann úr tækjahelvítisdraslinu til að fara með hann heim, nei!

Við hvern getur maður farið í mál?

Minnimáttarkennd og önnur blogg

Þessi morgunmatur sem ég fór í til Önnu Maríu um helgina varaði í FIMM KLUKKUTÍMA!!!
Je minn eini, hvað maður getur setið og blaðrað. En þetta var svaka gaman.

Útskriftaveislurnar voru báðar bara ágætar. Auðvitað var fullt af familíufólki sem maður þekkti ekkert. En í veislunni hennar Írisar þekkti maður eða kannaðist við flesta þar sem maður fer í nánast öll boð hjá henni. Og já! TIL HAMINGJU ÍRIS TÖLVUNARFRÆÐINGUR! c",)

Broskallar...
Það var stelpa að reyna selja mér auglýsingar (vegna vinnunnar) um daginn. Hún var frá einum af stærri miðlinum sem eru við völd í prent- og ljósvaka heimum á skerinu í dag.
Ég hef nú sjálf unnið fyrir mér sem auglýsingasölumaður (meðal annars) svo ég ætla ekki að segja eitt einasta orð til að rakka sölufólk niður á neinn hátt.
En sko... þegar það hringir fólk í mig sem er ekkert rosalega vant sölufólk og er þess vegna með ræðu tilbúna -hvort sem það hefur lært hana utan að eða það sem verra er; les ræðuna upp á blaði- gæti þetta auglýsingasölufólk alveg eins verið að lesa upp úr sálmabók mín vegna. Ég verð í einni hendingu að skilgreiningunni "inn um annað - út um hitt", heyri ekki orð. Því hef ég brugðið á það ráð að stoppa þetta -annars eflaust ágæta fólk- af strax í byrjun, svona til að spara bæði minn og þeirra tíma. Þessi fyrrnefnda stúlka féll undir þessa læraræðunautanað-katagoríu og því bað ég hana strax um að senda mér bara tölvupóst, en það er s.s. ráðið mitt. Þá les ég bara það sem fólk hefur að segja þegar ég hef tíma til þess. Þetta allt saman er varla frásögufærandi nema af þeim sökum að þessu stelpa gerir eins og ég bað um; sendir mér póst. Þegar myndaðist glufa seinna um daginn til að lesa yfir inboxið mitt rak ég augun í bréfið frá þessari eflaust ágætu stúlku. Allt í lagi með það, textinn fínn enda án efa saminn af markaðsfulltrúa innan fyrirtækisins. Nema... þessari stúlku hefur sjálfsagt ekki fundist textinn nógu líflegur og þess vegna bætt við fjórtán brosköllum (ég taldi þá) hist og þar inn í textann sem samanstóð af níu, tiltölulega stuttum, setningum.
Þetta finnst mér ótrúlega skrítið, hvernig kemst svona bréf útúr húsi hjá svona stóru fjölmiðlafyrirtæki? Ef ég væri að reka fyrirtæki sem byggði afkomu sína á því að selja auglýsingar, myndi ég svoleiðis skanna hvern einasta póst sem færi útúr fyrirtækinu til væntanlegra kúnna, eða ráða einhvern til að gera það. Ef ég fæ tölvupóst frá vini mínum sem inniheldur broskalla eftir hverja setningu, fer það rosalega í taugarnar á mér. Hvað þá ef ókunnugt fólk sendir mér solleis bréf með því markmiði að ná peningum af mér (fyrirtækinu). Mér finnst það vera eins og fólk sem er fyrir framan mann þegar maður talar við það og það yptir endalaust öxlum á afsakandi hátt. Það fer alveg rosalega í taugarnar á mér. Ég get litið fram hjá mörgum kækjum hjá öðru fólki, enda eflaust sjálf með þá marga án þess endilega að átta mig á því. En þeir kækir sem gegna því hlutverki að auglýsa slæma sjálfsmynd eða minnimátarkennd get ég ekki þolað. Ég á stundum mjög erfitt með að umgangast fólk sem þjáist af fyrrgreindum "kvillum". Held það sé vegna þess að ég vorkenni svoleiðis fólki svo mikið, það er helvíti óþægilegt að vera svona; endalaust að afsaka tilveru sína gagnvart öðru fólki. Ég hef nebbninnilega alveg verið svona sjálf.
Get með sanni sagt að ég þjáist ei meir af þessu í dag. Náði bata upp á eigin spýtur. Held að lækningin hafi helst staðið saman af sjálfsblekkingu og kæruleysi. En ef það virkar hverjum er þá ekki skítsama hvernig tilganginum er náð svo lengi sem enginn annar skaðist?
Svo var partur af lækningunni einmitt sú reynsla að vinna fyrir sér sem sölumaður. Vona þess vegna að þessi stelpa eigi eftir að ná bata...


Nú er rétt rúm vika í Foo Fighters og Queens of the Stone Age tónleikana. Er búin að setja nýjasta diskinn með QOTSA í tækið og stefnan er að hafa hann í þar til á tónleikadaginn. Ég hef aldrei verið mikill FF-fan en samt finnst mér þeir alveg ágætir, bara ekkert verið að eltast við að kaupa diska með þeim eða solleis, fínt að heyra í þeim í útvarpinu og þannig.

Er búin að vera (of?) dugleg við að skoða önnur blogg þessa dagana. Dagbók Tótu pönk er fínt blogg, er búin að lesa og lesa af þessari síðu en þessi manneskja er búin að vera svo lengi í bloggheimum að ég held það næsta víst að maður kemst aldrei yfir að tæma lesninguna. Nú, ekki nema maður myndi kannski eyða sumarfríinu í það... Held að Biggi yrði ekki sáttur við það, nema við fengjum okkur sitthvora tölvuna og hann mætti eyða jafnlöngum tíma og ég fyrir framan skjáinn sinn. Kannski það myndi reddast solleis. Hey kommon, slaka aðeins á hérna...
En anyveis, ég er alveg að fíla pælingarnar hjá þessari manneskju. Hef að sjálfsögðu ekki hugmynd um hver þetta er, skiptir ekki máli.

Talandi um að fíla pælingar hjá öðrum:
Fyrir mitt litla líf skil ég ekki af hverju ég hef -hingað til- ekki látið verða að því að hrósa henni Auði Harlads. Manneskjan er hreinn og klár snillingur!!! Hún er núna byrjuð með pistla á Talstöðinni á fimmtudögum og þessir pistlar taka heilan klukkutíma í flutning. Hún talar nánast stanslaust í klukkutíma og allann tímann eru eyrun á mér og athyglin mín límd við hlustir.

Ef einhver veit til þess að hún Auður sé að blogga, vill sá hinn sami vinsamlega setja inn slóðina hennar?

föstudagur, júní 24, 2005

Have a delicious Swiss Chockolate...

Eins og þið sjáið í kommentunum er slóð á annað blogg.
Ég kíkti á þetta áðan og... þvílík fokkings snilld!!!
Ég er búin að grenja úr hlátri, halda um magann á mér hristast eins og taugasjúklingur.
Þið verðið að kíkja á þetta, bara verðið!

Jæja! Litaði hárið á mér í gærkveldi. Skellti mér í apótek (venjulegt, ekki jurta) og fékk smá skammt af sjoppingspríi, en það er önnur saga. Keypti mér allavega skol. Það er voðalega lítil breyting á hárinu sossum, aðeins meira koparlitur í því en var. En það er nú allt breyting til batnaðar frá því hvernig það var, þannig ég er bara sátt. En það fylgdi líka aflitunarefni með í pakkanum, svona til að gera strípur. Ég lagði, satt að segja, ekki í það. Hef nebbinnilega lent í því að líta út eins og nötter sem er með fettish fyrir blettatígrum og vill líkjast þeim... Það var eftir misheppnaða gúmmíhettuaflitun, allir lokkarnir voru ekki dregnir alla leið í gegn heldur voru þeir eins og lykkjur út um þessu litlu göt. Það er skelfilegt að lenda í þessu af því eina leiðin til að redda því er að aflita hárið ennþá meira og þá er maður kominn í "litlagulahænan-pakkann" áður en maður veit af. Með svona white trash lúkkið. Held ég láti bara strípurnar eiga sig, bið kannski einhvern að hjálpa mér.

Býður einhver sig fram?

Ég fékk þvílíkt magn af prufum af kremum í apótekinu (af því ég var svo dugleg... að kaupa) og ég get svo svarið það að eitt kremið er SÚKKULAÐIKREM til að bera á andlitið!!!
Ég fór áðan á heimasíðuna hjá þessu fyrirtækið sem framleiðir þetta undur og þar stendur virkilega:
"Have a delicious swiss chockolate and stay slim"
Eru s.s. að meina að í staðinn fyrir að borða súkkulaðið á að bera það í andlitið svo maður fitni ekki af því... Ég bar það á andlitið í gærkvöldi og ég er ekki frá því að húðin hafi fitnað... Það var eins og ég hafi nuddað húðina með smjöri í morgun þegar ég vaknaði. En það var kannski ekki það sem við var átt, átta mig nú á því.

Nú er hann Óskar ofurköttur búinn að afreka það að koma með tvo fugla í búið, bara í þessari viku. Einn dauðan og einn sprellilifandi. Þessi sem var á lífi var reyndar orðinn stéllaus en það amaði ekkert annað að honum. Hann allavega flaug um allt eldhúsið og hrakti Bigga inn í svefnherbergi. Ég þurfti að fara í eldhúsið til að gera tilraun til að bjarga greyinu (fuglinum sko...) áður en hann myndi hálsbrjóta sig á glugganum. Það var búið að loka veiðidýrið inní forstofunni þannig það voru þvílík læti í báðum endum íbúðarinnar; flögrandi fugl í eldhúsinu og snarbrjálaður köttur í forstofunni. Ekki skil ég hvernig, en einhvernveginn fékk ég fugl-greyið til að koma á puttann á mér. Hann fór á puttann og ég setti bara hendina út um gluggann og hann sat í smástund áður en hann flögraði í burtu. Hann komst reyndar ekki langt. Í grasinu var annar köttur (stóra skrímslið) og hann var fljótur að ná fuglinum... Er með smá samviskubit yfir að vera samsek í morðinu, en ég veit samt ekki hvað annað ég hefði átt að gera. Taka fugl úr hálsliðnum bara af því það gæti annar köttur drepið hann svona einhverntíma í framtíðinni? Það er svona afsökun sem fjöldamorðingi myndi nota.
Seinni fuglinn, þessi dauði, uppgötvaðist í gærkvöldi undir sófanum í stofunni. Við föttuðum ekkert fyrr en Óskar fór að leika sér að honum og fiðrið byrjaði að þyrlast um allt. Djöfulli er þetta sikk þegar maður pælir í því; litla, sæta frekjunóran á heimilinu að leika sér með dauð dýr...

Þetta lítur út fyrir að ætla verða bissý helgi, eða allvega morgundagurinn; morgunmatur hjá Önnu Maríu og svo tvær útskriftaveislur (aftur). Tveir útskrifaðir tölvunarfræðingar í viðbót. Þetta eru ekkert nema einhverjir atvinnunördar sem maður umgengst. Það er bara kúl... mér finnst ég sjálf vera þokkalegur nörd og samt er ég ekki atvinnu-neitt. Kannski þess vegna er ég nörd... Þetta eru allavega orðnar þvílíkt nördalegar pælingar. Hehemm...

Eins og vanalega þá var mér búið að detta eitthvað óendanlega sniðugt (eflaust) í hug til að skrifa um en er búin að gleyma um hvað það átti að snúast. Held ég láti verða að því að fá mér diktafón. En ég keypti mér vítamín í gær í apótekinu svo kannski fer þetta að batna...

fimmtudagur, júní 23, 2005

Hugleiðingar

Er hrædd um að letikast dauðans hafi gripið mig í sambandi við að blogga.
Mér tókst -einhvern veginn- að sannfæra sjálfa mig um að ég hefði bara frá nákvæmlega engu að segja.
Eins og ég væri hingað til búin að vera segja frá einhverju þvílíku merkilegu og gagnlegu...
Hef því ákveðið að sætta mig við að vera harla ómerkileg -einafsexmilljörðum- mannvera og halda bara áfram dagbókarfærslum.

(Skrítið að lenda í hálfgerðri tilvistarkreppu sem tekur af á nokkrum dögum.
Kannski er þetta það sem fólk almennt kallar "að safna kröftum" c".)

Byrjum á þjóðhátíðardeginum:
Eftir að hafa eitt ómældum tíma í að gera akkúrat ekkert, ákváðum við Biggi að það væri nú ekki hægt að eyða þjóðhátíðardeginum í steikjandi hita og sól INNI !
Í þann mund sem við vorum -bókstaflega- að fara út um dyrnar, fékk ég þá flugu í hausinn að ég væri kannski ekki nógu skynsamlega klædd, miðað við hita og tilefni.
Því fylktum við Biggi liði inn í svefherbergi, opnuðum minn helming á fataskápnum og hófum að tæma úr honum á rúmið. Beittum aðferð sem í fólst að áður en fötin náðu lendingu á rúmið fóru þau fyrst utan á mig, sum oftar en tvisvar og sum oftar en þrisvar en alltaf þó með millilendingu á rúminu. Þetta var klassískt dæmi um fullan fataskáp af fötum, en "mig vantar svooo föt, ég á akkúrat ekkert til að fara í".
Það fór fáranlega langur tími í þetta sessjón. Biggi var ótrúlega þolinmóður yfir þessu ástandi á mér, var eiginlega bara rosalega hjálpsamur með þetta allt og sagði sitt álit á hverri múnderingunni á fætur annari án þess að skafa af hlutunum í þeim tilgangi að fá mig bara út og hætta þessari vitleysu. Enda nennir hann ekki að hanga með manneskju sem er í fúlu skapi vegna útlitslegrar vanlíðunnar. Skynsamur maður.

Ég held ég sé mjög útlitslega sinnuð hvað mig sjálfa varðar. Ég er ekki dómhörð á útlit annara, ekki meira en gengur og gerist held ég. Kannski er ég bara of upptekin á sjálfri mér til að veita öðrum athygli. Sjalló með afbrigðum...

Til að toppa vitleysuna þá löbbuðum við niðrí bæ af því ég hafði ákveðið að fara í pilsi. Sem væri nú ekki frásögufærandi nema að við löbbuðum fram hjá lagersölu á vegum Vero Moda og fleiri verslana. Að sjálfsögðu enduðum við Biggi með því að versla smá þar... af því ég á ekkert til að fara í.
Það var rosalega gott veður í bænum og við héngum á kaffihúsi í marga klukkutíma og ég fékk svaka lit af allri sólinni.

Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá man ég ekki alveg í hvað helgin fór.
Það er soldið sorglegt til þess að hugsa. Verð að taka mig á í þessu minnismálum.
Man bara eftir sófaliggi og áti. Kannski gerði ég ekkert annað...
Ég er nokkuð viss um að það sé liðið meira en hálft ár frá seinasta (síðasta) spirulina-kúr.
Held ég skelli mér í apótek og bítti á solleis og peningum.
Eða bara einhverju vítamíni. Þyrfti að kíkja á gamlar færslur en mig minnir að ég hafi óverdósað síðast og það hafi endað í einhverri djöfuls ógleði og óþverra.
Má nú ekki við því...
Held ég láti bara verða að því að kíkja í Jurtaapótekið. Hef ekki enn farið þangað af því Vala varaði mig við; ekki fara nema maður hafi nógan tíma og sjittlód af peningum til að eyða.
Ég hef engan tíma og er ekkert að drukkna í peningum, frekar en venjulega, en það verður bara að gera eitthvað í þessu lömunarástandi mínu.

Nú er ég búin að gugna á þeirri ákvörðun minni að hafa hárið á mér ólitað yfir sumartímann.
Ég fékk þá flugu í hausinn í vor -þegar ég áttaði mig á því að ég hafði ekki litað á mér hárið frá því um haustið- að sleppa því bara að lita það og sjá hvort hárið myndi lýsast í sólinni eins og það gerðist alltaf þegar ég var krakki.
Hárið lýsist ekki! Búin að komast að því og ég er sko ekki með fallegan hárlit, þannig ég ætla ekki að ganga um með rollulitaðan haus í frekari tilraunastarfsemi. Hana nú!
Þá er bara eitt; á ég að lita hárið ljóst eða dökkt?

Hmmm...

fimmtudagur, júní 16, 2005

Tvöhundruðtuttuguogsjö

Kannski ætti maður ekkert að vera segja frá svona ótrúlegum ljóskumómentum eins og ég gerði í síðustu færslu...

Jamm og já...

Alla þessa vikuna er ég búin að vera reyna ná í frú Klingenberg, sirka tíu sinnum á dag.
Svo hjóluðum við Biggi á Nauthól í gærkveldi og hvern haldiði að ég hafi séð sitja fyrir utan að sóla sig???
Að sjálfsögðu hana Klingen!
Ég kunni nú ekki við að ganga upp að henni þar sem hún var bara á kaffihúsi, ég er svo kurteis sko. Var með smá plott í gangi að fylgjast með því þegar hún færi, bíða þá í hálftíma og hringja svo í hana. Svo fór frúin og ég byrjaði að taka tímann. Hálftíma seinna labbaði hún AFTUR inn!
Þá ákvað ég að láta þetta eiga sig þann daginn, leyfa bara konunni að vera í fríi fyrst hún endilega vildi það. Búin að reyna tvisvar í dag og alltaf sama sagan; það er ómöglegt að ná í hana í síma. Ef ég rekst á hana aftur í bráð fær hún enga miskun frá mér, hvað sem hún er að gera.

Einhverra hluta vegna er ég með brjálæðislegar harðsperrur í kálfunum í dag, geng um eins og spítukall. Skil ekkert í þessu, hjólaði ekkert það mikið í gær. Stórskrítið.
En jæja, þá er bara að hjóla ennþá meira.

17. júní á morgun jeeyyy!!!
Ótrúlegt en satt þá er búið að spá alveg þrusugóðu veðri. Ég bara man ekki eftir 17. öðruvísi en með rigningu.
Er búin að vera spá í hvernig það myndi ganga að hjóla í bænum ( ganga að hjóla...). Held það hljóti að vera bögg, bæði fyrir mig og allt gangandi fólk sem ég -kannski bókstaflega- rekst á.
Planið er allavega að hanga sem mest í bænum... held ég.

Svo þarf ég að, gjöra svo vel að vakna ógeðslega snemma á laugardaginn. Þegar ég segi ógeðslega snemma meina ég einmitt það. Það þýðir að mín þarf að vera komin á lappir ekki seinna en 5:30 UM MORGUNINN (eða nóttina, eftir því hvernig litið er á það). Bróðir minn er að koma frá útlandinu og það þarf víst að sækja hann á flugvöllinn. Úff!

Kúlan er ennþá á eyranu á Óskari. Sárið virðist vera gróið og ég get ekki séð að þessi kúla sé eitthvað að pirra hann. En vonandi fer þetta samt, greyið kettinum er örugglega strítt af hinum kisunum í hverfinu. Kalla hann örugglega vanskapning eða eitthvað solleis...

JÁ!!! Við sáum kanínur hjá Nauthól í gær. Náði mynd af annari og allt. Hún kom mjög nálægt okkur, við máttum aðeins klappa á hausinn á henni. Ótrúlega gæf.
Spurði Óskar þegar við komum heim hvort hann vildi ekki litla kanínu til að leika við en Biggi hló bara svo ég held að það sé úr sögunni. Engin kanína á næstunni...

Man ekki alveg allt sem ég ætlaði að skrifa um, var komin með svakalega margar hugmyndir í kollinn, minnið ekki alveg komið í gang aftur.
Kannski man ég það einhverntíma og þá skal ég leggja allt frá mér og hlaupa að tölvunni og byrja að pikka. En ef ég er úti að hjóla eða eitthvað, er ég bara skrúd. Man bara að ég á að muna eitthvað en ekki hvað það er. Eins og um daginn var ég að flétta í hómópatahandbókinni minni, var að leita að remdíu sem ég vissi ekki hvað hét þannig ég þurfti bara að byrja á A og flétta mig áfram. Svo var ég orðin viss um að ég væri að halda vöku fyrir Bigga með öllu fléttinu þannig að ég ákvað að leggja frá mér bókina og halda áfram daginn eftir. Kíkti á blaðsíðunúmerið og ákvað að leggja það á minnið; 227. Svo þegar ég lokaði augunum varð ég hrædd um að ég myndi gleyma tölunni þanni ég byrjaði að kyrja í huganum 227, 227, 227 aftur og aftur. Svo sofnaði ég bara og þegar ég vaknaði morguninn eftir mundi ég töluna strax! En... "Tvöhundruðtuttuguogsjö!!! Hvað var það aftur??!! Hvað átti ég að muna í sambandi við 227?"

( Canberra er höfuðborg Ástralíu, búin að tjakka á því )

þriðjudagur, júní 14, 2005

Í ruglinu

Það eru nokkur dæmi um ótrúlegan rugling í hausnum á mér sem hafa átt sér stað í gegnum tíðina.
Mest er það nú eitthvað smávægilegt frá því ég var lægri í loftinu og enn vitlausari.
Eins og þegar ég sá Saturday Night Fever botnaði ég ekki fyrir mitt litla líf hvað hann John Travolta var að gera í myndinni og hann hét ekki einu sinni sínu rétta nafni sem var -að sjálfsögðu- Danny Zuko. Ég sá sko Grease og SNF í öfugri tímaröð.

Annað var þegar ég og bróðir minn vorum að rífast einhvern tíma og hann spurði mig hvort ég væri ekki í sambandi. Einhverra hluta vegna sá ég fjöltengi fyrir mér og skildi þ.a.l. engan veginn hvað hann var að meina...

Svo hélt ég því statt og stöðugt fram að ég ætlaði sko aldeilis að verða hún Margrét Þórhildur Danadrottning þegar ég yrði stór. Ég var ótrúlega sár út í Sylvíu og systur hennar þegar þær hlógu að mér. Mamma og pabbi voru sko búin að innprenta það í hausinn á mér að ég gæti orðið hvað sem mig langaði til. Þau kannski bjuggust ekki við að ég tæki því svona bókstaflega...

Svo var ég einhvern tíma að keyra í Hafnarfirðinum og sá skilti við veginn sem varaði við holóttum vegi. Stuttu seinna sá ég annað skilti -ekki eins vel því bíllinn fór svo hratt- en það sem ég sá var "18 holur". Ég hélt ég yrði ekki eldri, Hafnfirðingarnir töldu holurnar í vegunum. Það var ekki fyrr en ég benti fólkinu sem var með mér í bílnum á þessa vitleysu að þau gátu bent mér á móti á að við vorum að keyra fram hjá golfvelli...

Svo um daginn keypti ég mér allt of þröngar gallabuxur og var eitthvað að kvarta við hana Sylvíu um að þær gæfu bara ekkert eftir, ekki til teyja í buxunum. Búin að vera í þeim í nokkra klukkutíma og var orðin marin á mjaðmabeinunum. Sylvía var að reyna ráðleggja mér með því að það væri hægt að rennbleyta strenginn og strauja hann blautan. Ég saup kveljur. Ég sá það fyrir mér að strauja buxurnar á meðan ég væri í þeim, maður hlyti nú bara að brenna sig.
Þegar ég fattaði svo feilinn sá ég fyrir mér hvernig maður myndi útskýra svona "slys" upp á slysó. Maður yrði sennilega sendur á Kópavogshæli...

Svo er annað rugl í gangi núna:
Hvort er Canberra eða Melbourne höfuðborg Ástalíu?

(er það ekki örugglega Canberra...?)

mánudagur, júní 13, 2005

Skrímslabit

Jæja, loksins kom þetta svaka góða veður og ég er -að sjálfsögðu- inni að vinna.
Held að hitinn hafi farið upp í 18 stig í dag. Sólin skín og ekki sést skýjahnoðri á himnum.

Vona að ég nái í rassgatið á sólinni eftir vinnu.

Helgin var bara fín. Fór í tvær útskriftaveislur á laugardaginn og svo hjóluðum við Biggi til hennar Írisar skvísu um kvöldið.
Svo var gærdagurinn tekinn með trompi í letikasti dauðans.
Ég er sko ekkert að grínast með það þegar ég segist taka hvíldardaginn hátíðlega.

Óskar ofurköttur slasaðist á öðru eyranu um daginn og er með einhverja stórskrítna kúlu á því.
Held hann hafi verið bitinn af stóra skrímslinu. Skrímslið er s.s. skelfilega stór og feitur köttur sem er örugglega sýstematískt að terroræsa allar kisurnar í hverfinu. Vona að Óskar hafi náð að slasa hann eitthvað á móti, hann hefur allavega ekki sést í nokkra daga.
Það kom ógeðslegur gröftur úr eyranu um helgina en ég fékk að hreinsa það með spritti, hann var ótrúlega stilltur. Meðfæranlegri kött er sjálfsagt erfitt að finna.

Ég er með aðra spurningu í sambandi við notkun orða:
Er merkingarmunur á orðunum sinn og skipti?
Sbr. í fyrsta sinn / skipti

Anyone?

fimmtudagur, júní 09, 2005

Leiðindi

Helvítis veðurfrétta-aularnir halda bara áfram að svíkja mig.
Það var búið að spá sól og hita í dag en það er bara bloddí kalt og alskýjað.

Svona lagað gerir mig bara enn þreyttari.
Ekki mátti ég nú við því...


Get alveg setið og starað fram fyrir mig í margar mínútur án þess að ég geri mér grein fyrir því að tíminn líði.
Oooohh, þetta er svo erfitt líf!

Ekki beint líflegt blogg hjá mér þessa dagana...

miðvikudagur, júní 08, 2005

...hvað ég vorkenni...

Ótrúlega er erfitt að vera svona þreyttur í vinnunni.
Ég held varla augunum opnum, rugla í öllu sem ég geri og man aldrei neitt stundinni lengur.
Je minn eini, hvað ég vorkenni mér núna!

Bigga fannst Iron Maiden tónleikarnir "fínir".
Þetta er ekki orð sem ég tengi við tónleika með þessari hljómsveit... fínir.
"Geðveikt - meiriháttar - mergjað - ógeðslega flott" er frekar eitthvað sem ég bjóst við að heyra.
Eddie kom og það var víst svaka ljósashow í gangi. Appelsínugult ljós þegar "Run to the hills" var flutt ;)
Oooo, hvað ég hefði viljað vera þarna!
Je minn eini, hvað ég vorkenni mér núna!

þriðjudagur, júní 07, 2005

Veðurvæntingar

Hún Eva sagði í dag að hún hefði heyrt hann Sigga Storm lofa því í gærkveldi að hitinn myndi fara í UM og YFIR 20 stigin á fimmtudaginn!!!

Ég fór beinustu leið inn á veðurvefinn til að tjakka á málunum, en fann engar vísbendingar um þessa hitabylgju í kortunum hjá þeim...
Eins gott að hann Siggi Stormur hafi ekki verið að bulla eitthvað út í bláinn og búa til væntingar hjá manni, ggrrrr!

Ég er alveg sátt við rigninguna sko, finnst hún fín og ekkert hægt að kvarta yfir veðri þegar maður er hvort eð er fastur inni meirihluta dagsins.
En þegar maður heyrir svona spádóma fer maður bara að hoppa af tilhlökkun. Hver mínúta í sól og hita hérna á Frónni er eins og að vera kominn í paradís.
Finnst mér allavega. Eini staðurinn á jörðinni sem ég hef komið sem er hægt að anda í í hitanum, en ekki að kafna vegna raka í loftinu.

Vala hefur reyndar búið í Tucson í Arizona og það er nottla í eyðimörk svo það er víst enginn raki þar heldur. En öllu má nú ofgera... Hitinn þar fer alveg upp 45-50 stig.
Ég hefði einu sinni getað komist til Pheonix líka í Arizona sem au pair. En þegar fólkið spurði mig hvort ég þoldi hita vel og sögðu mér hversu heitt getur orðið þarna, ákvað ég að það væri skárra að halda lífi. Sleppti s.s. því tækifæri...
En ég er þó á lífi (held ég).

Biggi að fara á Járnfrúartónleika í kvöld.
Ég og Sylvía erum búnar að vera þeirra ánægju aðnjótandi að sjá þá ekki einu sinni heldur tvisvar!
Sáum þá á Hróarskeldu með Eddie á stóra sviðinu og allt! Fyrir þá sem ekki vita er Eddie lukkudýrið/skrímslið þeirra Járnfrúarmanna.
Svo fórum við aftur þegar þeir komu til Íslands '92.
Gegt stuð!!!

Síðasta (seinasta) sumar fór ég á tvenna stórtónleika: Metallica og Lou Reed.
Það leið yfir mig á BÁÐUM tónleikunum.
Ætla því að leyfa Bigga að fara einu sinni á tónleika án þess að þurfa hafa áhyggjur af mér allan tímann.
Góða skemmtun!

Vell! Vaðallinn hættur í bili.
Ragnar, yfir og út!
(Roger, over and out!)

mánudagur, júní 06, 2005

Spartakus Ljósálfur

Þessi mannanfnanefnd er soldið furðulegt fyrirbrigði.
Var að lesa um nöfn sem hún er nýlega bæði búin að hafna og samþykkja.
Nefndin hafnaði víst kvenmannsnafninu Elinora, en samþykkti karlamannsnafnið Ljósálfur.
Nú kemur þessi tilfinning aftur upp hjá mér þar mér finnst að ég þurfi að sýna einhverskonar viðbrögð en veit ekki alveg hvernig þau eiga að vera. Ég er barasta bit!
Ég myndi ekki einu sinni skýra köttinn minn Ljósálf...
Óskar á gælunafn sem er Frekjunóra, og yfirleitt segi ég það með greini; "litla frekjunóran mín".
Mér finnst Ljósálfur vera svona eins og Bjáni. Eitthvað sem maður myndi segja í aðstæðum þar sem manni fyndist einhver hafa gert einhverskonar "krúttleg" mistök eða sagt eitthvað klaufalegt.
"Ooooh, þú ert svo mikill ljósálfur!".
"Ooooh, þú ert svo mikill bjáni!".
Sko, þetta hljómar eins.

Annað nafn sem nefndin samþykkti er Spartakus.
Hún hafnaði nafninu Spartacus, s.s. með séi.

En það sem brennur á mér núna er þetta:
Hverskonar fólk vill gera börnunum sínum það að bera nöfn eins og Ljósálfur eða Spartakus???
Hvað er að fólki?
Ég sé það alveg fyrir mér; einhver krakki á leikskólanum að gera eitthvað af sér og fóstran orðin pirruð og segir: "Einar Ljósálfur, hlýddu!". (Einar erkifífl, hlýddu)

Svo hljómar Spartakus soldið eins og Herkúles, eða Seifur, nú eða Plató. Þetta eru svona nöfn sem ég myndi sennilega skýra dobermanhund, ef ég ætti solleis.
Töff og stórt nafn á töff og stórum hundi, en ekki á manneskju.
Veit reyndar um mann sem ber nafnið Sesar sem millinafn. Mér hefur alltaf fundist það soldið hundslegt...
En svo verður líka að taka það með inn í myndina að nöfn eins og María eða Jósef myndu líklega hljóma hálf-furðulega ef þau væru að koma núna fyrir mannanafnanefndina í dag. Ef maður væri ekki vanur þeim nöfnum fyndist manni örugglega eins og fólk væri að troða biblíunöfnum upp á börnin sín.
Af hverju ekki forn-grísk nöfn alveg eins og biblíunöfn?
Ókei, því meira sem í pæli í því þá finnst mér meira í lagi með Spartakus en Ljósálfur.

Næst koma nöfnin Tannálfur, Blómálfur og Stúfur. Ég get ekki með nokkru móti séð hvernig það ætti að réttlæta höfnun við þeim nöfnum.

Smá saga í lokin af gælunafninu hans Óskars:
Einu sinni var Óskar ofurköttur í rosalegu frekjustuði og ég, eins og algjör ljósálfur, að snúast í kringum hann. Svo var ég orðin soldið þreytt á honum svo ég tók hann upp sagði við hann með þvílíkri kelirödd: "Hvað ertu endalaust að væla þarna litla frekjunóran þín?"
Svo læt ég köttinn niður og Biggi stendur fyrir framan mig og horfir á mig eins og ég sé algjörlega búin að missa það. Ég skildi ekkert í þessum svip á honum og spyr hvort allt sé ekki í lagi.
Hann bað mig um að endurtaka það sem ég hafði sagt við Óskar og ég gerði það. Þá breyttist svipurinn nú aðeins og hann sagði mér hvað honum hefði heyrst ég segja:
"Hvað ertu endalaust að væla þarna litla skítuga hóran þín?"

föstudagur, júní 03, 2005

Minnið búið

Ég get svo svarið það að ég þurfti að fara aftur í þennan blessaðan Árbæjarskóla í dag og mér varð á að keyra fram hjá innkeyrslunni tvisvar áður en ég fattaði hvar átti að beygja!
Held þetta fari versnandi...

fimmtudagur, júní 02, 2005

Nýtt lúkk - aftur

Jæja, ein að missa sig í templeitabrjálæði...
Á íslensku heitir template "sniðmát" ! Spáið í því! Soldið skrítin þýðing.
Ég var einu sinni að kenna á tölvunámskeiði og fyrir fyrsta daginn var ég aðeins að líta yfir kennslugögnin og fraus algjörlega:
"Sniðmát???!!! Hvað í fjáranum er það? Ég hef aldrei heyrt minnst á það og hvað þá lært á það! Hvað í ósköpunum er ég eiginlega að fara kenna?"
Svo þegar ég fór að kíkja betur yfir gögnin var ég fljót að átta mig á því hvað sniðmát er.
Alveg er það merkilegt hvað yfirvaldið er að reyna varðveita íslenska tungu með því að hafa t.d. allt windowsumhverfið á íslensku, eða réttra sagt getur fólk valið hafa þann háttinn á ef það kýs það frekar. Sem er sussum allt í lagi nema fyrir svona fólk eins og mig sem -yfirleitt- getur með engu móti áttað sig á þýðingunum. Þetta er bara tímaþjófur, ekkert annað! Að vera eyða tímanum í að vera reyna átta sig á hvað er hvað... skil ekki svona.
Svo eru gemsarnir líka komnir með íslenska þýðingu -fyrir þá sem vilja. Ég veit hvað símaskrá, skilaboð og netið þýða, en ekkert annað. Ég get alveg eins stillt símann minn á finnsku, skil álíka mikið.
Trúið mér; ég er algjörlega hlynnt því að varðveita íslenska tungu, það má alls ekki misskiljast.
Æm oll for itt.

Helvíti hafa þeir verið séðir sem ákváðu staðsetninguna fyrir Árbæjarskóla.
Þeir hafa sko gert sér grein fyrir því að í framtíðinni myndi allskonar óþjóðalýður herja á grunnskólabörn með boð um eiturlyf og annann ósóma.
Ef maður býr ekki í þessum bæ er kenndur er við á, og hefur aldrei gert, er næsta ómöglegt að rata að þessari byggingu.
Ég þurfti að fara í þennan skóla í dag vegna vinnunnar, og því lengur sem ég var búin að vera rúnta um hverfið í örvæntingarfullri leit, dáðist ég alltaf meira og meira af þessu fólki sem var svona séð á sínum tíma að fela bókstaflega skólann fyrir fólki sem á alls ekkert erindi þangað.
Það kannski hafði sitt að segja í mínu tilfelli að mér hafði verið gefnar kolrangar upplýsingar um staðsetninguna til að byrja með, annars er ég frekar ratvís. Hef orðið það með aldrinum sko.
Aftur á móti er ég mjög áttavilt, furðulegt en satt þá fer þetta tvennt ekkert endilega saman.
Ef ég er stödd á stað sem ég er næsta ókunn á, get ég ekki gert mér grein fyrir hvaða átt er hvað fyrr en mér er bent á eina áttina, þá get ég púslað restinni saman. Yfirleitt...

Bróðir minn kom í heimsókn til mín í vikunni og tók vin sinn með sér sem tók páfagaukinn sinn með sér.
Stærðarinnar amason-gaukur með hjúds gogg.
Hann beit mig!!! Enginn smá bitkraftur í þessum kvikindum, mig minnir að stákurinn hafði sagt að það væru nokkur hundruð kílóa bitkraftur í þessari tegund. Puttinn er nú á sínum stað þannig að hann hefur kannski bara verið að leika sér... fuglinn alltso.
Óskar ofurköttur reyndi að líta út fyrir að vera harla áhugalaus um steikina, en gerði heiðarlega tilraun til að læðast að páfagauknum þegar hann hélt að enginn sæi.
Ég var eiginlega aðeins of fljót á mér að rífa köttinn í burtu, hefði átt að leyfa fuglinum að narta aðeins...
Það hefði kannski kennt honum lexíu og við Biggi hefðum kannski hætt að fá morgungjafir.
Ég held að Óskar hefði ekki haft roð í þennann páfagauk, engin smá stærð á þessu.
Svo er honum víst illa við konur, hefur alla tíð búið hjá karlmanni og líkar -einhverra hluta vegna- ekki við æðra kynið.
Furðufugl...

Ef einhver hefur ábendingar um hlekki sem skemmtilegt væri að hafa inn á síðunni, endilega deilið því með mér og ég bæti því inn á.

Spurning dagsins:
Ef guð er svo almáttugur að getur gert allt í heiminum, getur hann þá búið til svo stóran og þungan stein að hann getur ekki loftað honum sjálfur?

miðvikudagur, júní 01, 2005

Búin að vera veik

Nú er ég búin að vera liggjandi heima hjá mér í einhverri helvítis flensu frá því að sunnudaginn.
Aumingja ég!
Ætlaði aldeilis að fara út að hjóla á sunnudaginn þegar mér allt í einu fór að líða eitthvað illa. Lagðist uppí sófa til að láta þessa vanlíðan rjátla af mér, en nei! Mér fór bara að líða ver og ver.
Alveg týpískur andskoti.
Búin að missa af þvílíkt góðu veðri í vikunni, ekkert getað hjólað og ekki neitt.

Mér var farið að leiðast svo mikið heima hjá mér að ég ákvað að skríða í vinnuna í dag, en komst svo ekki út fyrr en eftir hádegi, hefði kannski betur átt að sleppa því, líður ekki vel núna.

Nú er hann Óskar ofurköttur ekki háttskrifaður á heimilinu.
Við Biggi vorum vakin í gærmorgun með fugl í svefnherberginu, ekki dauðan neeei. Það má ekki gefa okkur eitthvað dautt kvikindi, neeei. Hins vegar var hann helsærður, vængbrotinn á báðum og égveitekkihvaðoghvað. Blóð og fiður um allt herbergið.
Góð leið til að byrja daginn; aflífa lítið, saklaust dýr...
Svo toppaði hann afrekalistann í gær með því að smallbrjóta stóran, afrískan vasa sem Biggi fékk í útskriftargjöf. Gegt flottur vasi sem hefur alltaf haft hálfgert heiðurssæti í íbúðinni frá því hann kom til okkar. Alveg langaði mig að gráta þegar ég var að þrífa óskapnaðinn upp. En hann Óskar skammaðist sín nú alveg heilmikið, lét eiginlega eins og hundur; lá marflatur á gólfinu með hausinn ofan á loppunum og horfði upp til mín. Svo þegar ég var ekkert á leiðinni að fyrirgefa honum strax fór hann bara út, greyið. Kom svo aftur inn eftir sirka klukkutíma og þurfti að sleikja mig þvílíkt upp, vissi alveg upp á sig sökina.

En við fórum að hjóla á laugardaginn og afrekuðum að kaupa miða á tónleikana með Foo Fighters og Queens of the Stone Age.
Djöfuls snilld á það eftir að verða.

Nú fer þessum raunveruleikaþáttum að fækka á dagskrá sjónvarpsstöðvanna, hjúkkitt!
Að sjálfsögðu er ég komin inn í piparsveinaþáttinn, það var bara spurning um tíma. En hann fer nú líka að klárast. Passa mig bara á því að ef einhver nýr þáttur byrjar að fara ekki að fylgjast með honum. Betra að eyða sumakvöldum í hjólatúra og ísát.

Ein spurning:
Er einhver merkingarmunur á orðunum "síðari" og "seinni"?
(sbr. heimstyrjöldin síðari / seinni)
Anyone?