föstudagur, maí 27, 2005

Loksins!

Jessjessjessjess!!!!!

Loksins er kominn smá hiti hingað!
Er búin að sitja aðeins úti í dag (í algjöru skjóli) og það er bara steik.
Komin með lit og allt!

Nú verður sko hjólað út um allan bæ, keyptur ís og égveitekkihvaðoghvað.

Kynntist nýrri kisu í dag.
Þriggja mánaða kettlingur sem er fluttur í kofann við hliðina á vinnunni.
Það eru Litháar eða eitthvað þannig sem búa þar. Get því lítið talað við stelpuna sem á köttinn en mér sýnist hún nú ekki vera gömul, álíka og ég eða aðeins yngri.
Mér fannst eitthvað sorglegt við hana. Að búa í hreysi sem heilbrigðiseftirlitið hefur í rauninni dæmt óíbúðarhæft, í ókunnugu landi og skilur ekki tungumálið og talar voða litla ensku.
Vona að hún sé ekki einmanna... en hún er búin að fá sér kött, það lagar alltaf að hafa solleis inná heimilinu.

Eins og með ættleiðingarmálin hef ég líka mjög sterkar skoðanir á innflytjendamálum.
Akkúrat núna nenni ég ekki alveg að skrifa um það. Það verður örugglega mjög löng færsla, þegar að því kemur.
En núna ætla ég aðeins að sleikja sólina.

Aaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaa

fimmtudagur, maí 26, 2005

Þetta er ekkert grín...

... með þetta alshæmer mitt.
Í morgun mundi ég ekki hvað þriðjudagur heitir og núna áðan, þegar ég var að logga mig inn á bloggerinn, mundi ég ekki passvordið mitt. Starði á lyklaborðið í smástund og var að reyna muna hvað ég átti aftur að gera.
Þetta er hrikalegt.

Það er bara örugglega búið að vera of kalt of lengi.
Heilinn er alveg búinn að venjast því -á jafn ótrúlega mörgum árum og ég hef lifað- að það á að vera orðið hlýtt á þessum árstíma! Ekki þessi djöfulsins kuldi endalaust.
Maður er bara orðinn neikvæður á þessu.
Ég er þannig manneskja að veður hefur ótrúlega mikil áhrif á mig.
Í mínum huga er ekki til meira áreiti en veður (og nottla nýbylgjusinfóníur og spunadjass... önnur saga)
Rok er eitthvað sem fer ótrúlega mikið í taugarnar á mér t.d.
Líka rétt áður en rokið byrjar, það fer rosalega í mig. Þá verð ég svo óstjórnlega þreytt.

Fann ekki gleraugun mín í morgun fyrir mitt litla líf.
Leitaði og leitaði!
Það er soldið trikkí að sjá illa og þurfa þess vegna gleraugu og finna þau svo ekki... voðalega erfitt að leita að einhverju þegar maður er ekki með gleraugun á sér...
Þurfti þá bara að verða að svakagellu (alveg meira en venjulega - ótrúlegt) í dag og vera með linsurnar góðu.

Ég mundi allt í einu góðu hugmyndina sem ég fékk um daginn og ætlaði að tala um, en var svo búin að gleyma þegar ég settist fyrir framan tölvuna!!!
Sko! Þegar maður er að keyra og það er klikkuð umferð, allt alls staðar stopp og öll ljós of stutt og allt það, ÞAÐ er tíminn sem maður á að nota til að slappa af!
Spáið íðí!
Maður situr í bíl sem er pikkfastur í umferðarteppu, það er búið að vera brjálað að gera allan daginn í vinnunni og maður er að deyja úr stressi, þá er einmitt tíminn til að lækka í útvarpinu og leyfa sér bara aðeins að anda.
Það er ekkert annað hægt að gera hvort eð er.
Umferðin hreyfist sko ekkert hraðar þótt maður sitji inn í bílnum sínum, brjálaður að öskra á allt og alla í kringum sig.
Hef sko alveg reynt þá aðferð... oft og mörgum sinnum.
Mér finnst þetta snilldarleg leið til að slaka á í amstri dagsins.
Hvet alla til að prófa þetta.

Nú erum við Vala búnar að ákveða að fara í peeling í sumar.
Ætla að taka nokkra daga af sumarfríinu mínu í þetta.
Ég er nebbinnilega búin að rústa húðinni á mér með tanórexíunni. Margoft búin að skaðbrenna í framan og skaðinn er byrjaður að koma í ljós (ljós...)
Svo er maður líka orðinn svo gamall að það er alveg kominn tími á þetta...

Er ekki orðið tímabært að panta á Grund?

miðvikudagur, maí 25, 2005

Þetta kerfi!!!

Alveg er þetta mál, með konuna sem fékk ekki að ættleiða barn vegna líkamsþyngdar sinnar, að gera mig brjálaða!
Eftir því sem konan segir var henni synjað, í einhverskonar for-umsókn, bara vegna líkamsþyngdarinnar sem er víst of mikil.
Nú veit ég nottla ekkert um þetta mál per se, en þessi ættleiðingamál yfir höfuð fara bara mjög mikið í taugarnar á mér.

Af hverju mega allir eignast börn???!!!

Eina skilyrðið sem fólk virðist þurfa að uppfylla til að mega verða foreldrar, no matter what, er að vera líkamlega frjótt!
Það að eignast hund er meiriháttar mál, oft á tíðum. Það þarf að útvega allskonar leyfi og vottorð fyrir hinum og þessum bólusetningum og guð má vita hvað.
Í rauninni er þetta líka orðið svona með ketti. Ef maður er ekki búinn að láta kattagreyið standa í öllum skoðunum og pillum og sprautum, má maður eiga það á hættu að kötturinn verði bara tekinn af MEINDÝRAEYÐURUM sem starfa á vegum borgarinnar.
Hugsið ykkur!!!

En svo getur hvaða hálviti út í bæ orðið óléttur (eða gert einhverja ólétta - þið skiljið mig) og ekki nokkur maður skiptir sér af því!
Nú ólst ég nú upp í gettóinu í Breiðholti og kann alveg margar sögur um hversu langt fólk þarf virkilega að ganga í vanrækslu og jafnvel ofbeldi á börnunum sínum til að "lenda í eftirliti". Það er ekki endilega gert neitt til að bjarga börnunum frá þessu -algjörlega vanhæfa fólki sem kallast foreldrar þeirra- og börnin tekin af heimilunum. Nei! Fólkið er bara látið vita að "það sé verið að fylgjast með því".

Plís fólk!
Ekki taka því þannig að ég sé að segja að það séu allir ómöglegir foreldrar, flestir eru bara mjög góðir í sínu starfi eftir því sem ég best veit.
Er bara að meika point og benda á að það er ekki endilega samhengi á milli þess að vera gott foreldri og að vera líffræðilegt foreldri.

Það er til fólk sem kannski þráir ekkert heitara í lífinu en að eignast börn en getur það ekki -einhverra hluta vegna- og er alveg jafn hæft og næsti maður í að sýna barni ást og umhyggju, en þarf að láta eitthvað fólk út í bæ grandskoða líf sitt og gangast undir allskonar læknisskoðanir og rannsóknir og fara í nokkra sálfræðitíma til að sanna að það geti séð um barn!
Ef fólk langar til að ættleiða eitt stykki barn -og jafnvel forða því frá ömurlegu lífi í leiðinni- þarf það að ganga í gegnum þvílíkann prósess bara til að koma til greina!
Þetta ferli tekur mun lengri tíma en meðgöngur gera. Ég veit um fólk sem ættleiddi stelpu frá Kína og það tók þau tvö ár frá fyrstu umsókn þar til stelpan kom til landsins.
Hverju komust þau að í sambandi við barnauppeldi á þessum tíma?
Óx þeim einhver aukageta til að sýna barni umhyggju?

Ég spyr: Kviknar á einhverri áður óþekktri heilastöð við fæðingu á barni???
Veit allt í einu fólk eitthvað sem það vissi ekki áður um börn -og öllu sem þeim tengjast- þegar það fer upp á fæðingardeild?

Eða kemur þetta kannski allt smátt og smátt þegar barnið er komið inn á heimilið og foreldrarnir eru með börnunum nánast 24/7?

Ég hef aldrei rekist á -eða heyrt um- það uppeldisfræðirit sem passar hundrað prósent við öll börn.
Mig grunar sko að þau séu eins misjöfn og fullorðna fólkið...
En hvað veit ég svosem? Ég á nottla ekki börn, þannig að þessi heilastöð er ekki virk á mér.

Þegar ég verð einræðisfrú yfir heiminum þurfa ALLIR sérstakt leyfi til að eignast börn, hvort sem fólk vill eignast þau "eðlilega" eða í gegnum ættleiðingu!

Skítt með mannréttindi! Það er miklu auðveldara að hafa stjórn á kerfinu ef maður þarf ekki að taka tillit til tilfinninga annara.
Blákaldar staðreyndir og mín skoðun - það blívar í minni útópíu ;-)

þriðjudagur, maí 24, 2005

Alshæmer strax???!!!

Ég get svo svarið það að ég er komin með alshæmer!!!
Gerist þetta bara um leið og maður verður þrítugur?

Ég var áðan í bíltúr og var búin að fá hugmynd að einhverju snilldar umfjöllunarefni til að tala um hérna á síðunni minni.
Og viti menn!
Ég er búin að -reyna- að hugsa og hugsa og ég get ekki fyrir mitt litla líf munað hvað það var sem ég ætlaði að skrifa um...
Kannski ég ætti bara að fara á enn einn vítamínkúrinn, taka gingóbilóba eða eitthvað solleis.

Sit bara fyrir framan tölvuskjáinn og klóra mér í hausnum...

mánudagur, maí 23, 2005

And the winner is...

Jæja!
Þá eru öll úrslit helgarinnar orðin kunn.
Búið að krýna nýjustu sætustu stelpuna á landinu og besta lag Evrópu.
Ég ætla ekkert að tjá mig um júróvisjón. Er bara mjög glöð að Lettar unnu ekki.
Fékk nokkur sjokk þegar þeir voru komnir í fyrsta sæti í stigatalningunni.

Annars var þetta bara hin ágætasta helgi, tvenn partý á laugardaginn og pítsa og dvd í gærkveldi.
Ekki mikið búið að hjóla en það á sko að bæta úr því í kvöld.
Planið að borða kvöldmatinn (afgangur af pítsu), fara svo að hjóla og ná heim fyrir kl. níu svo ég nái nú Survivor, eða Þraukarann eins og Biggi kallar það. Fín þýðing.
Og svo er þetta tvöfaldur úrslitaþáttur í kvöld, je minn eini.
Tveggja klukkutíma sæla.

Er ég alveg búin að fokka upp í kommentakerfinu á síðunni minni fínu?
Það eru bara næstum engin komment núna... (KVART OG SNÖKT)
Er búin að fá kvörtun yfir því að þetta sé ekki nógu skýrt.
En, elshkurnar mínar, þetta virkar alveg eins og á hinnu síðunni, nákvæmlega eins!
Mér sem finnst nýja lúkkið svo fínt, hægt að hafa hlekki inn á og allt!

föstudagur, maí 20, 2005

Innanhúskeppnir

Þið hafið kannski tekið eftir því að ég hef ekkert verið að tala um hann Óskar ofurkött undanfarið.
Held nebbninnilega að ég hafi aldeilis hitt naglann á höfuðið með catnips-vesenið.
Þeta er bara orðinn allt annar köttur frá því ég hætti að dæla dópinu í hann...
Greyið litla, það sem á þennann kött er lagt!
En ef það yrði haldin heimsmeistarakeppni katta í frekju (innanhúss), myndi hann Óskar svoleiðis pottþétt -ekki bara vinna- heldur rústa þeirri keppni!

Talandi um keppnir.
Í kvöld er hin furðulega keppni Ungfrú Ísland (sem er haldin innanhúss).
Hef í rauninni aldrei botnað í solleis keppnum; hver er sætust?
Það er soldið sorglegt að spá í því að svona sætar, ungar stelpur skuli vera með svo lágt sjálfsmat að þær hafa þörf fyrir að láta stilla sér upp með tuttugu öðrum stelpum til að láta einhverja dómnefnd segja þeim hvað þær eru sætar! Eða ekki sætar. Hvernig líður stelpunum sem lenda ekki í neinu sæti eða fá ekki neinar sérstakar viðurkenningar frá dómnefndinni?
Halda þær ekki að þær séu glataðar og sjálfsmatið fer endanlega í gröfina?
Ég held að stelpan sem lendir í fyrsta sæti -sem virðist alltaf gráta yfir sigrinum- sé í rauninni ekki að gráta vegna sigursins, heldur vegna léttis! Það er örugglega þokkalega taugatrekkjandi að standa á sviðinu, og það er búið að kalla upp allar stelpurnar sem lenda í öllum hinum sætunum, vitandi að þú átt ekkert meiri möguleika en allar hinar sem standa við hliðina á þér og hafa heldur ekki verið kallaðar upp. Svo heyrirðu nafnið þitt kallað upp og missir þig af létti og byrjar að gráta -ekki gleðitárum- heldur léttistárum.
Furðulegt að fólk vilji setja sig í þessar aðstæður.

Og hvernig finnst ykkur svo nýja lúkkið?
Ég get svo svarið það að ég er alveg að tapa mér í bleika brjálæðinu...
Og þetta umslag hér fyrir neðan gefur ykkur kost á því að senda tölvupóst á alla sem hafa ekki notið þeirra ánægju að vita slóðina að snilldinni ;-)

JÁH !!!

Þetta er mesta hneyksli í sögu júróviskónkeppninnar!
Ég hef sennilegast sett heimsmet í því hversu lengi er hægt að halda niðrí sér andanum.
Er ekki hvert lag sirka þrjár mínútur að lengd?
Ég get svo svarið að ég andaði ekki á meðan "við" vorum á sviðinu.
Mér fannst Selma og stelpurnar barasta standa sig með afbrigðum vel og flest lögin sem komust áfram ekki svipur hjá sjón á við okkar framlag.
Dísess Kræst hvað það voru mörg lög sem sökkuðu feitt!
WigWam stóðu sig frábærlega, og sem betur fer komust þeir þó áfram.
Þá segi ég nú bara það sama og Eva beib; ÁFRAM NOREGUR!!!
Djöfulli voru þeir flottir í stultskónnum og glimmergöllunum, bloddý brilliant!
Og eins og hann Logi Bergmann sagði í blogginu sínu þegar hann var að tala um búningana okkar versus búninga WigWam:
"...hef enga trú á því að búningar ráði úrslitum. Þeir voru nokkrir svakalegir í gær. Ef að allir væru jafn gagnrýnir og við þá væri klárlega allt vitlaust í Noregi. Glam, söngvarinn þeirra, var í svo þröngum buxum að það var hægt að sjá hverrar trúar hann er!"

Halelúja og amen!

Þegar tilkynnt var um síðasta lagið sem komst áfram, hélt ég hreinlega að ég yrði ekki eldri.
Ég beið í margar mínútur eftir því að tilkynnt væri að "því miður" hefðu verið gerð mistök í stigatalningum og Lettar (eða Litháar, man ekki hvort þetta var) áttu ekkert að komast áfram, heldur Ísland. Eða jafnvel Slóvenar, það var drullugott lag!
En að þessir tveir þarna þrettán ára gaurar, með algjörlega hrikalegt lag í þokkabót, skildu komast áfram er langmesta hneykslið!
Sá það samt eiginlega í hendi mér að það væru örugglega fullt af tólf ára stelpum út um alla Evrópu sem sætu slefandi yfir imbakössunum þegar þeir voru að flytja sitt framlag (ef lag skildi kalla).
En, því miður, reyndist ég sannspá þar...

Biggi hringdi í mömmu sína eftir keppnina til að heyra hljóðið í henni og hún sagðist hafa verið svo reið yfir þessum úrslitum að hún þurfti að fara út að hjóla einn hring til að ná sér aftur niður... Alveg brjáluð!
(sennilegast fyndnustu viðbrögð sem hægt er að sýna, út að hjóla bwaaahahahahaha!!!!!!!!!!!)

Mér fannst Gísli Marteinn standa sig með prýði í kynnastarfinu,
ég hló alveg oft og allt!
Hvað var maðurinn að gera í sjónvarpinu allann þennann tíma?
Af hverju var hann ekki bara í útvarpinu? Hann er örugglega fínn útvarpsgaur.

Ég er eitthvað svo miður mín að mér dettur eiginlega ekkert í hug til að skrifa um.
Hætti bara núna og segi enn og aftur:

GO NORGE!!!

p.s. nennir einhver að telja öll upphrópunarmerkin?

fimmtudagur, maí 19, 2005

Go Selma!

Vá...
Það er bókstaflega allt að verða brjálað hérna á Skerinu út af þessu júróvisjón.
Það hefur ekki verið tala um annað á næstum öllum útvarpsstöðvum í dag og ég held -sveimérþá- að ég hafi aldrei á ævinni (og er hún nú orðin löng!) heyrt jafnmörg júróvisjónlög á einum degi.
Svo hef ég varla mátt vera að því að vinna, er búin að vera svo upptekin á júróvisjónsíðunni.
Endilega kíkið inn á þessa síðu og farið inn á bloggið, stórskemmtileg lesning.
Gísli Marteinn er bara stórskemmtilegur penni, merkilegt nokk.
Svo er Logi Bergmann líka að blogga þarna, og ég verð bara að viðurkenna það að mér finnst hann svaka skemmtilegur líka.

Svo eru allir að fara á límingunum yfir búningunum sem Selma og stelpurnar ætla að klæðast í kvöld. Fólk hefur verið að hringja inn í hrönnum á útvarpsstöðvarnar í dag að setja út á hana.
Greyið stelpan, ég vona bara að hún sé ekki búin að heyra neitt af þessu umtali. Örugglega leiðinlegt að stíga inn á sviðið í átfitti sem þú veist að allir heima séu í sjokki yfir.
Je minn eini, hvað allir hafa sterka skoðun á þessu.
Ég er sossum ekkert skárri, þannig séð. Hef sjaldan eða aldrei verið jafnspennt yfir þessu öllu saman. Það er algerlega búið að takast að heilaþvo mig af öllu brjálæðinu.
En það er bara gaman. Ég komst aldrei alminnilega í jólastuðið í desember, þrátt fyrir að hreinlega reyna það!
Svo það er bara fínt að taka þátt í einhverju svona hæpi, einu sinni.
En mér finnst alveg í lagi með þess búninga, þeir eru bara soldið öðruvísi. Og svo er miklu skárra að vera í einhverju sem fólk tekur eftir en að vera í gallabuxum og toppi... eins og sumir voru í einhvertíma.

Það efast ekki nokkur maður um það að hún Selma (okkar) komist áfram í kvöld. Það er solleis búið plana tonn af júróvisjónpartýjum á laugardaginn.
Það besta sem ég hef heyrt hingað til er að það er nottla hið árlega júróvisjónpartý á NASA með Páli Óskari í broddi fylkingar. Það fyndna er að Stapinn á Akureyri ætlar að vera með beina útsendingu frá NASA í sínu júrópartýi. Snilld!
Akkúrat núna er júrólag í útvarpinu, lagið með Skímó gaurnum og stelpunni sem ég hef aldrei vitað hvað heitir.

Vell, nú er klukkutími til stefnu og ég endurtek:
Allir á Frónni að kjósa Noreg og allir landflótta Íslendingar að kjósa hana Selmu okkar.
(það er líka í lagi að kjósa Sverige, þori ekki að segja neitt annað ;-)

Go Selma!
(hljómar þetta ekki soldið eins og "farðu Selma!"?)

þriðjudagur, maí 17, 2005

Tak skal du har...

... takk, takk, takk æðislega fyrir mig allir saman!!!
Bæði fyrir allar gjafirnar og ammliskveðjurnar.
Aldrei fengið svona mörg komment áður, það er svo gaaaman, endilega ekki hætta því.

Vá ég fékk svooo mikið af afmælisgjöfum að ég er enn í sjokki yfir þessu öllu saman.
Kort í Baðhúsið (frá pabba og Magga frænda), eyrnalokka (frá Bigga og Óskari ofurketti), tertuspaða og gaffla úr silfri (frá gamla svíðjóðarsettinu), úr og miða á Foo Fighters og Queens of the Stoneage (frá öllum stelpunum í vinnunni), útivistargalla og enga smá pró gönguskó (frá tengdaliðinu), brjálæðislega mikið af LUSH-vörum (frá Völu og Írisi) og svo síðast en eeekki síst REIÐHJÓL (frá Bigga (ekki Óskari)).
Svo skilst mér að ég eigi eftir að fá einhverjar gjafir sendar frá útlandinu... spennóóó.

Sjitturinn hvað ég og Biggi erum búin að hjóla mikið yfir helgina!
Hreinlega búin að bruna um alla Reykjavík, enginn smá dugnaður þar á ferð!

Spáið í því hvað mar á eftir að verða sportý!!!
Mar gerir barasta ekki annað en að hreyfa sig og baða sig, veit ekki hvernig þetta á eftir að enda...

Partýið heppnaðist svona líka vel.
Góð mæting og (næstum) enginn of fullur.
Fórum svo nokkur niðrí bæ um nóttina og sá furðulega atburður gerðist að bærinn troðfylltist um fimm-leytið um nóttina. Bara alvega eins og í dentíð, svaka nostalgía og mjög gaman.
Svo var bara blásið á þynnku á sunnudaginn og farið út að hjóla út um allan bæ og leikurinn endurtekinn í gær og þá var tekinn ennþá stærri hringur. Svo er stefnan tekin á að fara eitthvað að hjóla í kvöld líka - og á morgun og hinn og hinn og hinn...

Júróvissjon á fimmtudaginn og laugardaginn jjjeeeyyy!!!!
Svaka partý.
Þjóðernisremban er alveg að fara með mig þessa dagana. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hún Selma vinni keppnina í ár. Betra júróvissjon-lag hefur bara aldrei verið samið.
Svo held ég líka með Norsurunum, þeir eru með frábært dæmi nú í ár. Svo, allir á Íslandi að gefa Norðmönnum stig og allir Íslendingar sem staddir eru erlendis að gefa Selmu stig.
Samþykkt?

fimmtudagur, maí 12, 2005

Fisserinn

Í ljósi þess að hinn eini sanni stórskákmeistari lét sjá sig í vinnunni minni, og var hinn kurteisasti (mér til mikillar undrunar - bjóst við öllu af því við framleiðum ekki vörur nákvæmlega eftir hans höfði) ákvað ég að láta þennan link hérna inn.

Svo, af því að þessi var bara svo djöfulli fyndinn, hef hann líka.

Held svei mér þá að ég sé búin að redda mér drasli á sófann.
Kemur í ljós á morgun, þannig ekki hætta leitinni elskurnar mínar, ég veit að þið eruð sveitt í símanum en ég kann svo sannarlega að meta vinnu ykkar fyrir mig.

Ekki öfunda ég Englandsliðið, sem ég þekki, þessa dagana.
Það er spáð þvílíkri hitabylgju þar í sumar að elstu menn muna ekki annað eins.
Ég er bókstaflega dauð ef hitastigið fer yfir 25 gráður. Þoli engann hita.
Svo er raki í loftinu eitthvað sem ég meika ekki fyrir mitt litla líf, get ekki andað í solleis vitleysu.

Ooojojojoj.

miðvikudagur, maí 11, 2005

Pardone moi

Skúsí - afsakið ef ég hef ekki verið að standa mig sem skildi í skrifunum.
Það er bara búið að vera brjálað að gera í vinnunni minni svo mér hefur ekki skapast neitt svigrúm til skrifta.

LOKSINS er aðeins farið að hlýna hér á Frónni.
Ég get svo svarið það að mér var litið út um gluggann í gær og... ÞAÐVARFOKKINGSHAGGLÉL!!!
Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta.
Mér fannst eins og ég þyrfti að sýna einhver viðbrögð við þessum -óútskýranlega- atburði, en ég var bara algjörlega dofin. Ég get svo svarið það!
En hitastigið náði -sem betur fer- í tveggja stafa töluna í dag og gott betur (12 stiga hiti) og nú er ég á hnjánum í von um að bænir mínar dugi til þess að það bara hækkandi úr þessu.
Svo, ef hitinn fer hækkandi, þá munið þið það bara að það er mér að þakka.
Og hana nú!

Hvað haldiði???!!!
Sko! Ég verð að vera með smá formála að næsta máli á dagskrá:
Allt dramað í kringum hann Óskar ofurkött... ég er búin að finna vissa skýringu á því máli öllu saman.
Fyrir nokkru síðan keypti ég eitthvað þurrfóður sem honum finnst ógeðslega vont.
Ég vissi það nottla ekkert fyrirfram en ákvað að fyrst þetta var til þá þyrfti hann eiginlega bara láta sig hafa það og éta bara helvítis fóðrið, hvort sem honum líkaði ver eða verst. En þar sem ég get ekki neitað honum um neitt var ég alltaf að vorkenna honum og gefa -greyið dýrinu- allskonar kisunammi sem ég hafði keypt í Englandinu.
Það var nú ekkert smá magn af nammi sem ég keypti handa honum þar, skal ég segja ykkur.
Það var sérstaklega ein tegundin sem Óskar virtist vera einstaklega hrifinn af, þannig -að sjálfsögðu- gaf ég honum mest af því.
Svo í gærmorgun er ég að gefa honum nammið sitt, og verður litið á pokann með þessu uppáhalds nammi, og hvað haldiði að ég reki augun í?
Það stendur á pokanum: Stimulates inactive cats & kittens to exercise & play - irresistible CATNIP treats.
Ég er búin að vera ala greyið köttinn á catnippi og örugglega að dópa hann til helvítis. Hefði sjálfsagt alveg eins getað gefið honum spítt!!!
Svo hef ég ekkert skilið í því hvað hann er búinn að vera ergilegur og vælinn!!!
Jedúddamía...
Ég er búin að vera hreinlega að deyja úr samviskubiti, hrikalega vond og kærulaus manneskja!

Ammlið...
Nú er ég búin að bjóða fullt af fólki á laugardaginn, vona bara að einhver láti sjá sig...
-Einfalt er best- er þema kvöldsins, þaðeraðsegja mitt þema allavega.
Ætla bara að hafa bjór, bollu og snakk. Ekkert annað í boði frá mér.
Þannig að ef einhver misskilur málið og heldur að honum sé boðið í mat og mætir þess vegna svangur, tjah! þá verður sá hinn sami bara ofurölvaður bwaaahahahaha.

Helvítis sófinn minn er bara svo ljótur að mig vantar einhverskonar skítmix til að redda honum um stundarsakir.
Svo ég auglýsi hér og nú eftir STÓRRI ábreiðu til að hylja kvikindið, liturinn skiptir ekki nokkru máli.
Spyrjiði alla sem þið þekkið ef þið eruð ekki svo lánsöm að sitja á efnisbút sem nægir til að þekja stóran amerískan sófa. Með fyrirfram þökk ;-)

Held ég láti þetta duga í bili, þarf að fá fixið mitt núna.
Er s.s. raunveruleikaþáttafíkill dauðans!
America's next to model er í kvöld (miðvikudagur), Survivor á mánudögum, Queer eye for the straight guy á þriðjudögum og The Bachelor á fimmtudögum.
Hef reyndar ekki enn sett mig á það lága plan að setja mig inn í piparsveinaþáttinn, en það kemur örugglega að því...
Mér er ekki viðbjargandi.

föstudagur, maí 06, 2005

Mánudagsföstudagur...

Þetta er algerlega búið að fokka upp í hausnum á mér. Ég mun seint skilja þetta frí-vesenímiðrivikukjaftæði.
Ég er búin að tala um s.l. miðvikudag sem föstudaginn í allann dag, og ekki sú eina, það eru allir að ruglast á þessu í kringum mig.

Annað sem ég mun seint skilja; hæpið fyrir þessum Jeff Buckley.
Hann er s.s. í útvarpinu núna as we write (alltso lag með honum, hann er nottla komin undir græna). Þetta er óttalegt væl, það verður nú að segjast. Æi, kannski er þetta bara ég... ég á -einhverra hluta vegna- mjög erfitt með að höndla karlkynssöngvara sem eru að (reyna) syngja af yfirdrifinni tilfinningu. Þetta er bara eitthvað sem karlmenn komast ekki upp með, so sorry!
Dramatískur söngur er bara ætlaður konum, finnst mér. Annars er tónninn í söngnum farinn að hljóma eitthvað feik. Sérstaklega þegar þeir eru að reyna koma röddinni gegt hátt upp með mikilli hjálp frá rembingi.
Þeir karlmenn sem komast upp með svona dramatík eru eiginlega bara prófessjónal tenórar (sbr. Pavarotti) eða hommar (sbr. Elton John).
Það er annar söngvari sem syngur ekki ósvipað og Jeff Buckley, ég veit ekki hvað hann heitir en hann er í hljómsveit sem heitir Anathema, hann getur tekið mig af taugum, vælið mar, úff!!!
En þetta þykir mörgum mjög fallegt...

Sylvía: 8,9,13
Fór í bjánus og keypti tvo lítra af ís sem ég og Biggi erum næstum búin með, mmmmmm

Gríma: Bwaaahahahahahaha ég er ekki með neitt smááá góðan fattara! Sjónvarpsglápið er nottla búið að gera mig með eindæmum gáfaða ;-)

Í sambandi við ammlið er ég að spá í opnu húsi, veit bara ekki hvort það ætti að vera á föstudeginum eða laugardeginum. Á ammli á föstudeginum en það er alltaf betra að halda partý á laugardegi, bæði fyrir gesti og gestgjafann.
Þarf aðeins að spá í þessu áfram...

Það var verið að auglýsa kettlinga gefins í fréttablaðinu í gær og ég fór öll í kerfi.
Á ég að fá annan kött eða ekki???!!!

Heyrði um bók í gær sem fjallar um leit James Bond að Britney Spears á Kanaríeyjum.
Þyrfti eiginlega að redda mér eintaki af henni, hljómar sem einhverskonar gargandi snilld.

Vell, helgin að koma...
...aftur

miðvikudagur, maí 04, 2005

Ííís, mmmmm...

Ég er sennilega búin að eyða -samanlagt- þónokkrum klukkustundum í að hugsa um ís undanfarna daga...
Þetta er örugglega bara fitandi, viss um það.
Held að eina leiðin til að redda þessu vandamáli sé hreinlega að fá sér ís.

Var að skoða Baggalútinn og ákvað að setja þetta inn fyrir ykkur, elshkurnar (sagt með áherslu á háið).

HEY ÞÚ GEITUNGABANAFÍFL!!!
SVARAAAA
Takk fyrir.

Pítsatík

"Your own personal Pizzabitch, everybody should have one!"
Þessi frasi, sem ég heyrði í Hýrt auga fyrir gagnkynhneigða gaurinn í gærkveldi, kostaði mig hálftíma hláturskast. Sjaldan hef ég hlegið jafnmikið yfir einum sjónvarpsþætti, kostulegir gaurar.

Nú hefur Bigga tekist að draga mig í sund tvo daga í röð. Ekki syndi ég nú mikið þegar ofan í laugina er komið, nokkur hundruð metra og þá er ég orðin svo stolt af mér að ég leggst í dvala í heita pottinum... á það svo sannarlega skilið eftir allann dugnaðinn. Púff!

Djöfulsins fokking kuldi úti mar!!!
Mér er skapi næst að stinga af úr landi og fara yfir til lands Tjallanna.
Heyri ekki annað en hvað það sé gegt gott veður þar, ggrrrr.

Vesenið byrjað aftur með hann Óskar furðuverk...
Kannski er hann bara svo ofdekraður að það nennir enginn að hanga með honum. Öllum vinum hans finnst hann kannski frekur eða eitthvað solleis (andvarp).
Hann er nú soldið dekurdýr, það verður að viðurkennast. En mér finnst það bara allt í lagi, þetta er bara köttur, sé enga ástæðu til að vera með einhverja uppeldistilburði á solleis dýri. Kettir eru bara til að elska útaf lífinu og láta (næstum) allt eftir þeim. Ef ég ætti stóran hund væri allt annað uppi á teningnum; þá væri aginn til staðar, heldur betur mar! Myndi ekki vilja láta hundinn minn éta mig...
Nú er ég allavega komin aftur með það á heilann að fá bara annan kött á heimilið, það er svooo erfitt að horfa upp á dýrið sitt svona einmanna (katta).

Aftur frí í miðri viku á morgun. Undarlegt þetta með að flytja ekki frídagana yfir á föstudaga og gera langa helgi úr þessu, held að það sé gert eiginlega alls staðar annarsstaðar í heiminum.
Fokkar algerlega upp í hausnum á manni að mæta aftur á föstudeginum, vinna í einn dag og svo aftur frí.

Ekki enn náð í Klingen, spáiðíðí!
Reyni og reyni að senda henni hugboð, kannski er hún diskonnekted núna... Allavega virkar ekkert; hvorki hugarorka, hugsanaflutningur né sími. Merkilegur andskoti!

Vinsamleg tilmæli til geitungabanans: Viltu plííís segja mér hver þú ert??!!

Ég er alveg í rusli yfir þessu afmæli mínu.
Getur einhver bent mér á hvað ég ætti að gera?
Fólk er endalaust að spyrja mig hvað ég ætli að gera; hvort ég ætli að halda partý eða hvað.
Ég veit EKKERT hvað mig langar að gera, finnst það samt næstum því skilda að gera eitthvað,
EN HVAÐ???!!!

Sjitturinn...

mánudagur, maí 02, 2005

Þetta er ástæðan...

...fyrir ótrúlegum, yfirburðagáfum mínum!!!
Hef alltaf vitað það innst inni að allur tíminn sem ég eyði í sjónvarpsgláp er ekki að ástæðulausu.

Þyrfti eiginlega að redda mér þessari bók.

Þessi "geitungabani" er ekkert að grínast með þetta...
Ég get verið alveg ógeðslega forvitin manneskja!

Gggrrrrr

Ný byrjun

Þá er komin enn önnur vinnuvikan...

Helgin var þannig séð bara róleg hjá mér. Við Biggi tókum íbúðina í gegn á laugardaginn eftir að hafa labbað bæinn þveran og endilangan og enduðum svo í Kringlunni.
Héldum upp á tiltektina með nokkrum bjórum og vinum. En allt í rólegheitunum samt.
Svo fór ég bókstaflega ekki út fyrir hússins dyr í gær, tek hvíldardaginn yfirleitt mjög hátíðlegan.

Furðuverkið hann Óskar ofurköttur veiddi fugl handa okkur. Var svakalega móðgaður þegar fuglinn var allt í einu horfinn af gólfinu og engar þakkir veittar.
Hvað þessi köttur má nú þola... ótrúlegt pakk!

Gugnaði á hárinu á mér og klippti það alveg sjálf með svona líka ágætum árangri, þótt ég segi sjálf frá. Tók nú bara rétt neðan af því, en það er sko ekkert mál að klúðra því, skal ég segja ykkur, hef lent í því...
Annars mæli ég með LUSH búðinni. Er alltaf að komast að því betur og betur hvurslags snilldarvörur fást þarna. Mæli þá sérstaklega með sjampói í föstu formi, þvílík gargandi snilld!

Nú gengur allt út á það þessa dagana að láta stjórnamálaflokkana gera uppgjör sín og bókhöld (er það til sem fleirtöluorð, einhver?) opinber, hvaðan þeir séu að fá styrki, hvað einstaka menn eru með í laun frá sínum flokki o.s.frv. Mjög gott framtak. Og nú eru Vinstri grænir búnir að opna sínar bækur.
Athyglisverð lesning.

Vell, vaðallinn búinn í bili...