föstudagur, nóvember 10, 2006

Kvitt


Vildi bara rétt kvitta og láta vita að Edinborgarsíðan er enn við líði (lýði?).

Er búin að setja inn nýja tengla hér við hliðina og taka aðeins til í gömlu
(tenglunum þ.e.a.s.).

þriðjudagur, september 05, 2006

Ný bloggsíða

hefur verið tekin í notkun.
Slóðin er edinborg.bloggar.is en svo er líka linkur inn á hana hér við hliðina.
Biggi er byrjaður að skrifa, en við ætlum bæði að nota sömu síðuna á meðan við erum úti.
Þessi verður samt ennþá til, en ég býst nú ekki við mörgum færslum á hana... ekki frekar en undanfarnar vikur...
Við mæðgur förum í lok vikunnar til Edinborgar.
Allir sem vilja fría gistingu eru velkomnir - bara helst hringja á undan sér.

Bless í bili.

laugardagur, júlí 01, 2006

Mjaá

Þetta er bara æði!
Stal þessum link af síðunni hennar Evu.
Þið verðið að tjekka á þessu.

fimmtudagur, júní 29, 2006

Á gullskónnum

Dagur tvö án fótbolta...
Þetta er eins og að vera veikur heima frá vinnu; maður veit ekki alveg hvað á að gera af sér þannig það endar með algjöru aðgerðarleysi.
Leikurinn milli Frakklands og Spáns var mun meira spennandi en ég hafði gert mér vonir um.Ég var fyrirfram búin að spá Spáni sigrinum en hélt ekki með þeim samt, hélt eiginlega með hvorugu liðinu. En svo komu mörkin og það seinasta sem Zidane skoraði, jiii hvað það var flott og allt í einu varð hann geðveikt flottur gaur sem ég hafði aldrei tekið áður eftir. Zidane á gullskónnum sínum...
Nú er ég farin að halda með Frakklandi sko!
(ætli það verði ekki til þess að þeir detti úr keppni...)

En það er svaka leikur á morgun; Þýskaland - Argentína
Held að ég haldi með Þjóðverjunum en það verður að segjast að Argentínumennirnir spila miklu skemmtilegri fótbolta.
En það væri bara svo gaman ef tvö Evrópulönd myndu keppa um fyrsta sætið.
Svo er seinni leikur dagsins milli Ítalíu og Úkraínu en ég held þar með Úkraínu.
Svo eru það England - Portúgal, held með tjöllunum.
Ætli ég sé ekki hér með búin að dæma þessi tvö lönd úr keppninni...
Kemur í ljós.

Gamangaman á morgun en í dag verð bara að lesa og kjafta við hana Bjarnheiði sem er farin að hjala endalaust mikið. Hún bara hættir ekki, ekki eini sinni þegar hún er að drekka. Sætasta hljóð í heiminum.

Og svo nottla aðalatriðið: Við erum að fara til Danmerkur og Svíþjóðar !!!!!
Vúhúúúúú!!!!

mánudagur, júní 26, 2006

Við hættumörk

Sjitturinn hvað það var brjálæðislegt að horfa á seinni leikinn í gær!
Slagsmál og læti og allt!
Þetta var einskonar frelsun fyrir mann að sitja heima í stofu og sjá þetta í beinni útsendingu; blóðheita Portúgala og (?) Hollendinga að fara á taugum að skalla hvorn annan, gefa hvor öðrum olbogahögg, gróflega tækla mann og annan... svona á þetta að vera!
Fyrst var ég alveg skrikjandi af fögnuði en svo var ég bara farin að gapa, orðlaus.
Og ég sem kem úr aðalgettóinu í Breiðholtinu og kalla nú ekki allt ömmu mína (enda væri það nú örugglega skrítið ef ég myndi gera það - kalla allt ömmu mína...)
En nú eru bæði liðin sem ég hélt með dottin úr keppni.
Já, ég hélt líka með Hollandi.
Þannig nú er svo komið að ég þori varla að gera neinu liði það að halda með því, þótt ég sé svona eiginlega farin að halda með Englandi, en bara í laumi sko.

Bókin sem ég keypti mér um daginn er svona líka rakin snilld!
Hún er eftir gaur sem heitir Carl Hiaasen og ég átti eina bók eftir hann fyrir sem ber heitið Basket Case. Biggi gaf mér hana...
Þeesi heitir Skinny Dip og er svo brjálæðislega fyndin að ég held stundum að ég sé að valda Bjarnheiði SBB (Shaken Baby Syndrome) þegar hún er að drekka hjá mér því ég fæ svo rosaleg hlátursköst að hún hristist öll og skelfur framan á mér.
Þessi bók er tæplega fimmhundruð blaðsíður þannig ég nenni varla að segja frá henni en í mjög stuttu máli þá er hún um hjón sem fara í skemmtisiglingu og maðurinn hendir konunni fram af skipinu til að drepa hana án þess að það sé nein augljós ásæða fyrir morðinu. Konan lifir þetta s.s. af en í staðinn fyrir að fara til lögreglunnar ákveður hún að hefna sín á karlinum. Þetta er eins svartur húmor og hann getur orðið. Mæli eindregið með þessari bók, greinilega...

Well, farin að horfa á leikinn. Ítalía - Ástralía í gangi núna. Ég spái því að landið sem endar á -lía vinni leikinn muhoooaa...
Þyrfti eiginlega að hætta núna, veit ekki hvernig þetta endar eiginlega, kannski þyrfti ég að fara á lyf - í alvöru talað!

laugardagur, júní 24, 2006

Í sól og sumaryl

Jammogjá!
Fór í gönguferð í garðinn í gær með bók OG barnið, jájá gleymdi henni nú ekki.
Voða kósý hjá okkur, hún sofandi í vagninum og ég að lesa/í sólbaði.
Fundum stað þar sem ekkert fólk var svo við vorum bara tvær mæðgurnar í algjöru skjóli.
Þar til fjórir strákar mættu á svæðið með frisbídiska í mörgum stærðum að leika sér...
En það var allt í lagi, bara gaman að fylgjast með þeim að klifra í trjánum eftir diskunum sem voru alltaf að lenda þar.

Svo tókum við Biggi garðinn í gegn svo maður er búinn að vera voða mikið úti í góða veðrinu.

Biggi fékk lánaða einskonar rafmagnssög, til að snyrta runna, lánaða. Við eigum ekki svo langa framlengingarsnúru, sem þarf að ná alla leið út úr húsinu, en það hefði nú ekki verið mikið vesen að fá hana lánaða hjá Togga, pabba hans Bigga sem var hvort eð er að lána sögina. En nei! Þeir feðgarnir bitu það báðir í sig að hvert og eitt heimili verði nú að eiga allavega eina góða framlengingarsnúru. Biggi fór svo í dag í Byko til að versla eins slíka fyrir heimilið og kom til baka með eina slíka... 50 METRA langa, takkfyrirtakk! Alveg skærappelsínugula og þykka, svona eins og alvöru iðnaðarmenn nota!
Nú verð ég að taka það fram að við Biggi erum búin að búa saman í sirka sex ár og aldrei höfum við þurft á svona framlengingarsnúru að halda. Ef við höfum þurft svoleiðis græju hefur það verið í formi kannski 15 metra lengdar.
Svo kostaði þetta handlegg og fótlegg í þokkabót.
Karlmenn, segi ég nú bara með nefið uppí loft.
Þetta verður örugglega ekki mikið notað, en við eigum þó eina góða framlengingarsnúru...
Ég var að djóka með það við Bigga að ég gæti farið í næstu götu og blásið á mér hárið og honum fannst það alveg upplagt; að standa úti á hringtorgi með hárblásara í hönd.

föstudagur, júní 23, 2006

Soldið gleymin

Jæja, mér tókst allavega að reyna gera gott úr góða veðrinu um daginn.
Ég drullaði mér út og fór með dótturina í göngutúr alla leið niðrí miðbæ.
Þar sem við sátum á Austurvellinum, Bjarnheiður glaðvakandi í fanginu á mér bara að skoða mannlífið, kemur allt í einu andlit alveg upp að okkur og rödd í kjölfarið: "Hvað er hún gömul?"
Ég get ekki haldið öðru fram en að mér hafi brugðið soldið. En þetta var s.s. einhver bláókunnug kona að dást að "litla barninu". Gerist þetta oft, þið fólk sem eigið börn? Eru ókunnugir virkilega að gefa sér leyfi allt í einu til að "tala" við börnin ykkar? Þetta finnst mér geðveikt skrítið...
EN! Eftir þessa skrýtnu reynslu datt mér í hug að kíkja í Pennann sem er niðrí bæ, kaupa mér bók og setjast í Hljómskálagarðinn til að gefa stelpunni að drekka og ég ætlaði að lesa á meðan. Hljómar ótrúlega rómó, finnst mér. Svo ég skundaði yfir götuna með Bjarnheiði undir handleggnum, stýrði vagninum með hinni hendinni og fór í bókabúðina til að skoða úrvalið. Eftir mikla og ítarlega leit gat ég loksins komist að niðurstöðu um hvaða bók skildi kaupa. Það var orðið svo langt síðan ég fór í bókabúð til að kaupa bók handa sjálfri mér að ég var komin með sjö bækur til að velja úr. En, eins og ég segi, tókst mér að velja og fór með fenginn að kassanum til að borga. Í sömu andrá og ég tók upp seðlaveskið úr töskunni sá ég fyrir mér úlpuna mína, hangandi upp á snaga í forstofunni heima, með kortið í vasanum...
Áður en ég vissi af hafði langdregið "ooooohhh" sloppið frá mér. Afgreiðslustelpan spurði mig hvort ég væri ekki með neinn pening á mér. "PENING? Hver er með pening á sér???", spurði ég stelpuna til baka með grátstafinn í kverkunum. Ókei, kannski ekki alveg en næstum því, ég var allavega mjööög svekkt. Þannig ég bað stelpuna um að geyma fyrir mig bókina hjá kassanum af því ég ætlaði svo sannarlega að koma aftur um kvöldið kaupa helvítis bókina. Sem ég svo gerði eftir að Biggi kom með bílinn heim.
En ég endaði s.s. á því að fara í Hljómskálagarðinn til að gefa litlu druslunni að drekka en í staðinn fyrir að lesa góða bók á meðan, skoðaði ég mávana... mjög rómó.

En nú er aftur komið gott veður.
Í dag verður gerð tilraun #2 til að fara í garðinn með barnið og góða bók. Held að þetta muni ganga betur núna þar sem ég á bókina og tek hana með mér og þarf þ.a.l. ekki að muna eftir korti né peningum.
Þá er bara að muna eftir barninu...

miðvikudagur, júní 21, 2006

Hvað gerir maður þá?

Jæja, loksins gott veður!
Og ég sem er nýbúin að endur-uppgötva undur og stórmerki, svo ekki sé talað um skemmtanagildi , photoshop.
Var að fara gróflega yfir fjöldann af ljósmyndum sem búið er að smella af þessu fjögurra mánaða gamla barni... sirka 1500 stykki æ kidd jú nott!
Það er alveg hægt að eyða miklum tíma í tölvunni með Bjarnheiði á gjafapúðanum fyrir framan sig, setja myndir í tölvuna og þaðan á síðuna hennar eða að fótósjoppa myndir eða bara hanga á bloggsíðum.
Eins og þið sjáið er ég í rauninni búin að mastera það hvernig er best að eyða tímanum í fæðingarorlofi.
Svo má ekki gleyma HM! Einhverra hluta vegna er ég voða spennt yfir fótbolta allt í einu...
Held með liði og allt! Svíþjóð, það er liðið mitt í ár.
Svo kemur þetta góða veður með sól og hita og ég fer bara í kerfi; samviskubit yfir að vera ekki úti en get samt varla slitið mig frá tölvunni og boltanum.
What to do?

mánudagur, júní 19, 2006

Fundin

Bévítans snúran er fundin og ég er byrjuð að setja inn myndir á fullu!

Skrifa meira þegar því er lokið.

föstudagur, júní 16, 2006

Nýjar myndir

Vildi bara láta vita að væru komnar inn nýjar myndir af dömunni - Bjarnheiði sko, ekki mér...
Það eru nú samt líka myndir að bæði mér og Bigga Í SUNDI - þvílíkir hasarkroppar mar!
Sérstaklega ég, jahá...

Og nei!
Uessbé-snúran er ekki fundin, það er bara virkilega orðið þannig að fólki er alveg hætt að lítast á þetta aðgerðarleysi á síðunni hennar og er farið að koma færandi hendi með myndir á disk.

Maður fer nú bara að skammast sín...

fimmtudagur, júní 15, 2006

Draugagangur?

Það er eitthvað mjög dularfullt í gangi hérna í þessari íbúð...
Uessbé-snúran er sko ekki það eina sem týnt í augnablikinu.
Það eru ótrúlega margir hlutir að hverfa og birtast svo aftur.
Bleika snuðið hennar Bjarnheiðar var búið að vera horfið í meira en mánuð þegar ég allt í einu sé það á eldhúsgólfinu í fyrradag.
Biggi kom heim í gær til að ná í tilkynningu frá póstinum um að Amazon væri búið að senda einhverjar bækur til hans.
Við leituðum og leituðum allsststaðar, út um alla íbúð og fundum ekki miðann.
Þ.e.a.s. ekki fyrr en Biggi var farinn aftur, þá fann ég miðann þar sem hann átti að vera allann tímann og trúið mér; við vorum sko búin að leita þar, ég kann sko að leita!
Það mætti gefa mér starfsheitið Professional Tracker.
Svo eru alltaf einhver föt að hverfa og koma svo aftur í ljós á hinum skrýtnustu stöðum, sérstaklega bolir.
Kannski eru bara draugar hérna sem klæðast bolum, eru alltaf að tengja eitthvað með snuð upp í sér og þurfa eitthvað að lesa öðru hvoru.
En hver þarf þess sossum ekki?

þriðjudagur, júní 13, 2006

Enn engar myndir

Uessbé-snúran er enn týnd...
Það eru snúrur út um alla íbúð, ég get ekki nefnt eitt herbergi þar sem a.m.k. fimm snúrur eru ekki í (jú, kannski baðherbergið) í íbúðinni. En þessi snúra, sú eina sem ég þarf áða halda akkúrat núna er í felum...
Djössins!

mánudagur, júní 12, 2006

And the name is...

Hér má svo sjá hvað nöfnin á dömunni merkja ásamt öllum öðrum nöfnum í íslensku þjóðskránni.

Hár - los

Hann Róbert minn Makkaróní er staddur á landinu og er búinn að fara sínum snilldarhöndum um annars sorglegt hárið á mér.
Ég var s.s. búin að vera á vergangi alveg frá því síðast þegar ég var að kvarta undan fjarveru hans Róbert míns. Bloggaði um það en man ekki, og nenni ekki að fletta því upp, hvenær það var nákvæmlega.
Nú var ég byrjuð á einhverjum stælum með að kaupa mér (ljóst) skol út í apóteki og klippa mesta slitið sjálf úr hárinu og var alveg farin að heyra hann Róbert skamma mig, eins hann hefur gert áður:
"Ég er ekki pípari! Ekki reyni ég að gera við vaskinn heima hjá mér ef hann lekur, af því ég er ekki pípari, skilurðu! Ég panta mér pípara. Þú ert ekki hárgreiðslumeistari, þú átt ekki að reyna gera þetta sjálf!"
Þannig að fyrir algjöra tilviljun komst ég að því að hann væri á landinu og var fljót að panta mér tíma hjá honum.
Nú er ég orðin alveg dökkhærð aftur og allt slit farið ofaní ruslafötuna á hárgreiðslustofunni.
Reyndar hafði óléttan þau áhrif á hárvöxtinn á mér að ég hef ekki haft eins sítt hár frá því ég fermdist. En á móti kemur að brjóstagjöfin er að gera mig sköllótta. Það hrynja heilu hárlokkarnir úr mér í hvert skipti sem ég renni bursta í gegnum hárið þannig að nú er svo komið að ég þvæ hárið, leyfi því aðeins að þorna inní handklæðinu, set svo hárið í tagl og snerti það helst ekki aftur fyrr það er kominn tími á að þvo það á ný.
Það eru hár eftir mig út um allt; gólfinu, rúminu, öllum húsgögnum, barninu, manninum, kettinum, sturtuniðurfallið er alltaf á barmi stíflunar o.s.frv.o.s.frv. Það er í rauninni alveg stórmerkilegt að það sé ennþá hár á hausnum á mér.
En mér fróðara fólk hefur sagt mér að þessu líkur um leið og brjóstagjöfin. Spurning hvort það verði nokkuð um seinan...

föstudagur, júní 09, 2006

"Vil du please hjelpe me?!"

Þetta sagði gömul, norsk kona við mig í símann um daginn.
Hún talaði eiginlega enga ensku og þar sem ég tala nú ekki mikið í norsku var þetta "samtal" með þeim furðulegri sem ég hef átt, og hef ég nú átt þau nokkur.
Fyrst hélt ég að Biggi væri að rugla í mér eins og honum einum er lagið, en þar sem símtækið á heimilinu er með númerabirti gat ég séð að þetta símtal var í raun og veru að koma frá Noregi og að þessi gamla, norska kona var sennilega til í alvörunni en ekki sem karakter á lager hjá honum Bigga.
Ég reyndi að koma henni í skilning um að ég skildi hana ekki nema hún talaði smá ensku en gerði jafnframt þau misstök að segja henni það á minni, skrýtnu dönsku þannig hún ruglaðist gersamlega í ríminu og hélt að skildi hana fullkomlega. Svona eins og þegar einhver segir "sorry but I don't speak english!".
(Eða eins og eftir einhverja Danmerkur/Svíþjóðardvölina með Sylvíu þegar hún spurði afgreiðslustrákinn í IKEA "How mange peninga?")
En það allra furðulegasta við þetta allt saman var erindi konunnar. Hún var að leita að "Mister Borgeirsson - Mister Berger Borgeirsson", sem getur hæglega verið "Mister Birgir Þorgeirsson". Ég náði að skilja að hún hafði hitt þennan Berger Borgeirsson í Noregi, hann væri frá Íslandi og það sem meira er; hann átti að vera "very important mand i Island - he is manager i Sparebanken pa Island!" Þar sem ég taldi mig vita við hvað hann Biggi ynni og í þokkabót - þar sem ég er svo upplýst manneskja - vissi ég að enginn bankatjóranna á Íslandi er nafni hans Bigga sagði ég við gömlu, norsku konuna að ég gæti barasta alls ekki hjálpað henni þar sem ég væri alls ekki viss um hvað eða um hvern hún væri að biðja. Greyið konan var orðin gráti næst þegar hún loksins skildi hvað ég var að segja við hana en hún neitaði alfarið að ná því að þessi maður - hver svosem hann var - hefur sennilega ekki verið að segja henni satt eða hún eitthvað alvarlega misskilið hann. Ég meira að segja var svo almennileg að fara í símaskránna fyrir hana og gá hvort það væri einhver annar skráður í þessa merku bók með þessu nafni en svo var ekki. Þannig það endaði með því að þessi gamla, norska kona hálföskraði á mig eitthvað á norsku og skellti svo á mig.
Greyið konan...

En annars er ekki svo mikið að frétta.
Héldum nafnadag á laugardaginn s.l. , buðum ekkert allt of mörgum að koma en samt kom alveg hellingur af fólki - bara gaman.
Heiða, mamma hans Bigga, fór næstum því að gráta þegar hún heyrði hvað stelpan á að heita.
Alltaf gaman að koma fólki til að gráta - svo lengi nottla sem það er gert af gleði...
En það er mjög mikill léttir að vera búin að festa nafn við hana.
Bjarnheiður Guðrún passar ótrúlega vel við hana; hún er soddan bangsi.
Um leið og ég er búin að finna uessbé-snúruna þá set ég inn fleiri myndir á prinsessu-síðuna.

Til hamingju með afmælið Gríma!

fimmtudagur, júní 08, 2006

Snúrur

Ef ég dey ekki af völdum þess að flækja lappirnar á mér í snúrum, detta og hálsbrjóta mig eða fá raflost af snúrum þá á ég sennilega eftir að missa vitið, vefja snúrum um hausinn á mér og skjóta mig.
Af öllu mínu hjarta þá hata ég snúrur.
Það eru til ógeðslega margar snúrur á heimilinu mínu.

laugardagur, júní 03, 2006

Bjarnheiður Guðrún

...heitir daman.
Hljómar vel, ekki satt?

Bjarnheiður Guðrún Birgisdóttir

þriðjudagur, maí 30, 2006

Nafn komið á sunddrottninguna

Haldiði að það sé barasta ekki búið að ákveða nafn á afkvæmið!
Svona vill þetta oft vera þegar lýðræðið er allsráðandi hjá fólki. Það verður bara ekkert að hlutunum. Sjálf aðhyllist ég einræði en þá að sjálfsögðu að því tilskyldu að ég sé sú með valdið...
En allavega...
Þá er nafnaveisla en ekki skírn. Við Biggi erum hvorug kristin en viljum samt halda í hefðina með fjölskylduhitting og kökuát.

Evróvisjón búið í ár og ég var nokkuð sátt við úrslitin. Tel að þetta sé allt Wig Wam að þakka að Finnarnir unnu þetta í ár á svona atriði. Evrópubúar fengu upphitun í fyrra.
Þetta dæmi með að senda Silvíu Nótt finnst mér bara snilld; gefa bara skít í þessa keppni og gera þetta að einu stóru djóki. Þetta er eina leiðin til að gera grín að svona keppni þar sem fáranleikinn er allsráðandi. Vandamálið er bara að það er fólk sem ekki tekur gríninu og enn aðrir sem einfaldlega fatta ekki að það sé grín í gangi.

Kosningarnar búnar og búið að mynda meirihluta í borginni.
Ég veit sossum ekki hvað mér finnst um það að það séu sömu flokkamyndanirnar í borginni og á þingi en ég veit bara að það var kominn tími til að skipta um flokk(a) við völd. Samt soldið svekkt yfir því að Oddný Sturludóttir skuli vera í "röngum" flokki þar sem hún er yfirlýstur jafnréttissinni.

Nú er dóttirin byrjuð í ungbarnasundi og er að sjálfsögðu að standa sig langbest af öllum börnunum. Var fyrst til að fara í kaf og er ekkert hrædd við hvorki sundlaugina né sturtuna; þrælvön því að fara í sturtu með pabba sínum.


Nú er mál að hætta, verð að sinna sunddrottningunni.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Smá hjal

Þetta þýðir ekki lengur...
Búin að lofa aftur og aftur að skrifa um allann fjandann sem ég stend síðan aldrei við.
En nú verður breyting á!
Allavega ætla ég að byrja á einhverju...

Ég var að fara í gegnum gamlar færslur hjá sjálfri mér til að athuga hverju ég var búin að lofa að skrifa um. Eitt af því sem ég fann var um fæðinguna og því skildu.
Ókídókí, hér kemur það: ÞAÐ VAR DRULLUSÁRT!!!
Mér skilst að þetta hafi gengið mjög vel en það breytir samt ekki þeirri staðreynd að þetta er sennilega sá versti sársauki sem mannslíkaminn gengur í gegnum á lifsleiðinni. Að öllum karlmönnum ólöstuðum held ég að þeir geti aldrei sett sig í þessi spor, þannig að þegar þeir byrja að röfla um hvað við (konur) séum að gera mikið úr þessu mun ég brosa og ekki segja orð, því nú veit ég betur en þeir.
Það tekur því ekki einu sinni að ræða þetta.
En þetta tók s.s. um 24 tíma. Endaði með mænudeyfingu og töngum.
En ég sá viðtal við fæðingalækni um daginn sem sagði m.a. að fæðingavegurinn hjá homo sapiens sapiens er barasta alls ekki til þess fallinn að koma krökkum út og allt verði bara í gúddí. Það eru víst undantekningatilfelli sem það geta. Fæðingavegurinn hjá okkur er víst of boginn eða eitthvað álíka.
En, mér s.s. tókst þetta og allir lifa og eru við hestaheilsu í dag.

Afkvæmið (það er enn ekki komið nafn á það...) er farið að tala hvorki meira né minna. Jú, reyndar minna. Þetta kallast víst hjal.
Þvílíkt og annað eins krúttilegt hljóð hefur bara aldrei heyrst áður í manna minnum, eða ég og Biggi stöndum allavega í þeirri trú. Erum búin að taka vídeó af því og allt! Þetta er bara æði!
Við erum farin að máta nafn á dömuna en erum samt eitthvað feimin við það.
Ganga allir foreldrar í gegnum þetta?
Við köllum hana frekar Litlu Drusluna eða Kellinguna en þessu nafni sem við erum að (reyna) máta. Kannski kemur þetta bara vonandi að sjálfu sér...

Ég er ennþá að sjá taggið RG út um allan bæ. Er að verða soldið forvitin um hver þetta sé sem stendur fyrir þessu og hvað RG stendur í rauninni fyrir.

Ég og Biggi erum að fara í enskupróf á laugardaginn (afmælisdaginn minn hint hint). Það kallast TOEFL og nýtist manni ef maður ætlar að sækja um enskumælandi háskóla út í hinum stóra heimi, en aðallega í Bandaríkjunum.
Það eru allskonar pælingar í gangi hjá okkur þessa dagana í sambandi við nám erlendis.
Ennþá eftir að taka ákvörðun um það en þetta próf er allavega byrjunin.

Í gærkvöldi sat ég fyrir framan imbakassann með sugumaskínuna á túttunni og nartaði í döðlur í rólegheitunum. Sugan var næstum því sofnuð í fanginu á mér þegar allt í einu heyrðist þetta skaðræðisvein frá henni. Og svo opnaði hún augun og fór að hágráta. Mér brá svo rosalega að ég var í meira en klukkutíma eftir á að draga andann djúpt til að jafna mig. Aumingja barninu brá auðvitað mun meira en mér og grét og grét í soldinn tíma eftir. Ekki hef ég hugmynd um hvað kom fyrir en mér grunar að hana verið að dreyma.
Nema hvað...
Í morgun gerðist þetta svo aftur; við mæðgurnar vorum að kúra upp í rúmi, báðar sofandi (held ég), þá vaknaði ég við annað svona vein frá henni og svo fór hún að hágráta og það tók mig smá tíma að ná henni aftur niður. Greyið litla. Ég skil ekkert í þessu.
Vonandi gerist þetta bara ekki aftur.

Jæja, þá er Druslan byrjuð að láta í sér heyra, nennir ekki að horfa á mig lengur fyrir framan tölvuskjáinn eins og ég hafi barasta ekkert að gera...

Smá ráðlegging að lokum:
Ekki taka B-vítamín fyrir svefn ef þið viljið sofa alla nóttina...

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Leikur

Bróðir minn er s.s. búinn að starta nýjum leik í bloggheimum sem ég tek að sjálfsögðu þátt í.
Endilega svarið þessum spurningum í comments.

Ég nenni engan veginn að skrifa allar spurningarnar upp á nýtt svo ég klippi og lími bara (með oggulitlum breytingum).
Góða skemmtun :-)

1. Hver ert þú?
2. Erum við vinir?
3. Hvenær hittumst við fyrst og hvernig?
4. Ertu hrifin/nn af mér?
5. Langar þig að kyssa mig?
6. Láttu mig hafa gælunafn og útskýrðu af hverju þú valdir það
7. Lýstu mér í einu orði
8. Hvernig leist þér á mig þegar þú sást mig fyrst?
9. Lýst þér ennþá þannig á mig?
10. Hvað minnir þig á mig?
11. Ef þú gætir gefið mér eitthvað, hvað myndi það vera?
12. Hversu vel þekkirðu mig?
13. Hvenær sástu mig síðast?
14. Hefur þig einhverntímann langað að segja mér eitthvað en ekki getað það?
15. Ætlarðu að setja þetta á bloggið þitt svo ég geti skrifað um þig?

föstudagur, apríl 14, 2006

ójá

Stelisteli...

Innrammaður Óskar ofurkötturEn hvað hún er nú fín :-)

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Nafnleysi

Það er enn ekki búið að ákveða nafn á afkvæmið.
Ég er svona næstum því farin að hafa áhyggjur af þessu, sé ekki fyrir mér neitt nafn sem er nógu gott fyrir hana.
Við Biggi erum búin að ræða það að nefna hana bara ( ) , eins og Sigurrósaplatan hét(ekki) forðum daga.
Eða bara .is.
Svo er alltaf hægt að gera styrktarsamning við eitthvert stórfyrirtækjanna og nefna hana í höfuðið á því, eða vöru sem það framleiðir, gegn greiðlsu...
Þá endar kannski með því að hún muni heita Pepsí eða Vöxtur... aldrei að vita hvað maður tekur upp á skoh.

Ég hef eiginlega ekki mikið að segja, langaði bara að deila þessu "vandamáli" með ykkur og svo kannski sjá í leiðinni hvort það eru einhverjar hugmyndir í gangi...

(fullt að nýjum myndum inn á Prinsessu-síðunni)

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Húsverk o.fl.

Ég er múltítaskari dauðans!

Í dag er ég búin að baka fimm stykki brauð, þvo næstum öll barnafötin (þ.e.a.s. þau sem eru í notkun - ég er ekki brjáluð eins og sumir sem ég þekki og tek föt úr skápunum til að þvo...) og er á leiðinni í göngutúr með barnið í vagninum.
Talandi um barnið; ég er búin að gera þetta allt saman með það sofandi í fanginu!
Reyndar er hún í burðarpoka framan á mér. Þessi poki er algjör snilld! Takk kærlega fyrir lánið á þessari snilld Guðbjörg!

Eins og venjulega er ekkert rosalega mikið að frétta.

Ekki komið nafn á erfingjann. Hún er ekki kölluð neinu sérstöku nafni eða uppnefni svo það er allt í lagi ennþá; ekkert á leiðinni að festast eitthvað hræðilegt gælunafn á hana eins og "Dúlla" eða "Litla".
Neinei, hérna er hún kölluð Litla Druslan, Kellingin, Snúlla, Litla dýrið, Prinsessan, Dramadrottningin og eitthvað meira. Ekkert eitt af þessu er notað oftar en annað.

Óskar ofurköttur er farinn að taka hana í sátt, held ég...
Hann átti soldið erfitt til að byrja með, var ekki alveg að botna í því af hverju þetta Litla dýr var svona lengi hérna, af hverju við færum ekki með það til baka þaðan sem það kom. En svo er hann farinn að átta sig á því að þetta Dýr á líka heima hérna. Hann hefur meira að segja sýnt hegðun sem bendir til ábyrgðartifinningu; ef við höfum lagt hana frá okkur, t.d. á rúmið okkar (sem er auðvitað of stórt til að ungabarn velti sér fram úr), hefur hann lagst fyrir brúnina sem er næst henni, eins og til að passa að hún velti ekki fram af.
Svo erum við tvo ömmustóla sem hún situr stundum í (annar er með nuddi...) og yfirleitt þegar Óskar labbar fram hjá stólunum þá tékkar hann á því hvort hún er þar og ef hún er þar þá nuddar hann sér yfirleitt upp við stólinn eins og til að heilsa henni á sama hátt og hann heilsar okkur Bigga með því að strjúka sér upp við okkur.
Áður en Snúlla kom í heiminn vorum við komin með vögguna sem hún átti að sofa í. Hún stóð inn í stofu í nokkra daga og Óskar var ekki lengi að hertaka þetta fína rúm til að sofa í. Svo kom Prinsessan og átti bara að taka rúmið af honum! Hann var ekki parsáttur við þetta fyrirkomulag og var frekar móðgaður út okkur Bigga.
En núna hefur Litla dýrið ekki sofið í vöggunni soldið lengi (það bara svo hryllilega kósý að hafa hana upp í hjá okkur á nóttunni) að Óskar er farinn að fatta að rúmið "hans" stendur bara autt næstum því alltaf. Svo núna vaknaði ég í nótt og varð vitni að frekar furðulegri senu; Biggi, Litla Druslan og ég lágum sofandi uppi í hjónarúmi og Óskar ofurköttur sofandi í vöggunni við hliðina á okkur...
Ég held að það sé óhætt að segja það að þessi köttur sé svo dekraður að hann sé farinn stórlega að misskilja sitt kyn og hlutverk í veröldinni yfirleitt. En það er allt í lagi mín vegna; hann er gæludýr en ekki vinnudýr eins og hann væri sennilega ef hann byggi í sveit sem hann gerir ekki.

Ég myndi aldrei dekra svona rosalega við stóran hund! En ég myndi heldur aldrei fá mér stóran hund nema ég myndi búa í sveit eða mjög stóru húsi og væri ekki að vinna og hefði nægan tíma til að sinna honum.

En annars er allt eins og best verður á kosið.
Litla dafnar vel og allt bendir til þess að hún verði löng og grönn, miðað við hlutföllin á henni í dag.
Sylvía og co. eru flutt heim svo ég get hitt hana þegar mig langar til, sem er nottla frábært!
Ég er alveg í skýjunum yfir þessum flutningum og veit að þau eru það líka.

Well! ætla hætta núna; er að pikka með annarri sjáiði til...

fimmtudagur, mars 30, 2006

Af hverju ekki...?

In a Past Life...
You Were: A Banished Herbalist.
Where You Lived: Saudi Arabia.
How You Died: Consumption.
Who Were You In a Past Life?


Svo tók ég líka sama próf og Guðbjörg og fékk sömu útkomu og hún.
Annars held ég að það sé lítið að marka þessi próf, en það er gaman að þessu (finnst mér allavega).

föstudagur, mars 24, 2006

Mjólkurpóstur

Bara rétt að kíkja á ykkur, elshkurnar mínar (þetta "há" á að vera þarna).

Það er nottla sorglega lítið að gerast hjá mér þessa dagana. Ég er auðvitað að skemmta mér konunglega en það er ekki frá miklu að segja... þið skiljið. Það væri bara hundleiðilegt að lesa "hún brosti svo fallega í dag" eða "vá! búin að skipta fimm sinnum um bleyju á síðustu tveimur tímunum".
Mér myndi allavega finnast það frekar óspennandi að lesa solleis hjá öðrum.

En við erum búin að fá vagn svo við mæðgurnar förum hvern einasta dag í göngutúr. Þvílíkur munur! Að komast út ef maður vill, úff hvað það er yndislegt.

En ég er að pikka með annarri og það tekur svo langan tíma, ég er varla að nenna meiru núna.
Það eru komnar nýjar myndir inn á netið af erfingjanum, endilega kíkið!

mánudagur, mars 13, 2006

Jájájájá...

Þetta fer allt að koma.
Endilega skoðið myndirnar af afkvæminu í millitíðinni.
Svo var ég líka að setja inn tvo nýja linka; Siggu og Gumma í Danaveldi (Sigga er ss. systir hans Bigga og Gummi kærastinn hennar). Bæði mjög skemmtilegar síður.

Það gerðist soldið duló hérna áðan...
Ég fór inn í forstofuna til að ná í Fréttablaðið og hvað haldiði að hafi verið þar?
Pakki!!! Í voða fallegum pappír sem innihélt náttföt handa erfingjanum!!!
Ég er algjörlega forviða. Þessi pakki var ómerktur með öllu svo ég hef enga hugmynd um hver er svona gjafmildur...

Jæja! Fyrrnefndur erfingi, sem á mánaðarafmæli í dag, er alveg að ærast yfir afskiptaleysinu svo ég verð að bæta mig í hlutverkinu og fara að sinna henni.

Öntill leiter ðen...

fimmtudagur, mars 02, 2006

Halló heimur!

Við erum öll enn á lífi og allt það.
Ég er búin að vera haldin bloggleti dauðans undanfarnar vikur en lofa því að fara gera eitthvað í þessu.
Akkúrat núna er ég að pikka á lyklaborðið með annari hendinni og held um brjóstasuguna með hinni. Prinsessan er s.s. bókstaflega á brjóstinu á mér á meðan ég er að reyna mundast við skrif. Þetta er ekki alveg að virka...
En það er nottla frá svo ótal mörgu að segja svo ég verð að vera dugleg að skrifa næstu dagana.
Í millitíðinni set ég link á myndasíðu litlu dömunnar hér við hliðina. Það koma reglulega inn nýjar myndir.
Þar til næst...

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Prinsessan

Fæðingin afstaðin, meira um það síðar, sjá myndir!
http://www.flickr.com/photos/prinsessan/

laugardagur, desember 10, 2005

Bumbumyndir

Þessi mynd var tekin áðan. Í dag er ég komin einhversstaðar á milli 32 og 33 vikur á leið. Það eru allavega minna en tveir mánuðir í got samkvæmt útreikningum. Svo er verið að hóta því að setja mig eitthvað fyrr af stað svo það gæti verið enn styttra í að daman komi. Kemur í ljós.
Þessi mynd var tekin þegar ég var komin ca. fimm og hálfan mánuð á leið, eða 25 vikur give or take. Smá munur, ekkert eins rosalegur og ég hélt samt. Mér líður yfirleitt eins og strönduðum hval eða skjaldböku...
Stundum er þetta allt í lagi, bara hjúds magi sem hreyfist rosalega mikið.
En ég hef alveg sloppið við bæði grindagliðnun og slit, hingað til allavega
7 - 9 - 13 !!!!!!

miðvikudagur, desember 07, 2005

Á lífi

Vildi bara láta vita að ég væri á lifi og allt solleis.
Er bara haldin einhverri ritstíflu og bíð eftir að það gangi yfir.

Það var verið að benda mér á að setja bumbumynd á síðuna...
Geri kannski eitthvað í því á næstu dögum. Maður er nú orðinn heldur stór skoh!

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

RG

Í nokkrar vikur er ég búin að sjá "taggið" RG út um allan bæ, og þá meina ég ALLAN bæ.
Þetta er allsstaðar; á strætóskýlum, götuskiltum (af öllum stærðum og gerðum), rafmagnskössum, húsum, veggjum, ljósastaurum, götuljósum, vörubílum, grindverkum, o.s.frv.o.s.frv.
Svo hef ég alltaf staðið í þeirri meiningu að "taggarar" eigni sér svæði með því einmitt að krota taggið sitt innan þess, svona til að afmarka það. En þessi ágæti RG-taggari á greinilega MJÖG stórt svæði ef þetta er rétt sem ég held. Ég er búin að sjá þetta alveg jafnt í Vesturbænum og Grafarvogi eða Kópavogi. Hann er kannski bara eini taggarinn sem er eftir.

Nú er ég farin að hljóma eins og ég sé eitthvað voða inn í þessum taggara- og graffaraheimi. Hehehe, ónei, það er ég sko ekki og hef aldrei verið. Ég kem bara, eins og margir vita, út gettóinu á Íslandi; Breiðholtinu. Þar kynnist maður svona lingói og reglum. Einhverra hluta vegna hef ég alltaf tekið eftir töggum. Ætli það sé ekki vegna þess að það voru ósjálfráð viðbrögð hjá manni í den að ef maður var ekki í sínu eigin hverfi var betra að vita hvort það hefði orðið "valdaskipting" innan hverfisins sem maður vissi ekki um. Ekki það að það hefði skipt mann neinu höfuð máli ef svo hefði verið en það var bara alltaf betra að vera viss. Sumt fólk er nottla bara galið að upplagi og aldrei að vita hverju það tekur upp á... Sumir tóku þetta meira alvarlega en aðrir.

En ástæðan fyrir því að ég er að tala sérstaklega um þetta tagg er að sjálfsögðu augljós, ekki satt?
Rósa G.... RG... mínir upphafsstafir.
Og neibbs, ég er ekki þessi taggari ;-)

Fór á White Stripes um daginn.
Þau voru bara nokkuð góð, systkynin. (Reyndar skilst mér að þau séu svo ekkert systkyni eftir allt saman, þetta sé bara sölubrella).
Það kom smá tæknivesen upp á um miðbikið en þau náðu að redda sér fínt út úr því þótt það náði að stressa mig soldið. En ég hef nú aldrei stúderað þennan dúett neitt sérstaklega en finnst þau alveg fín og það er alltaf gaman að fara á tónleika.

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

YogabearMig langar helst að senda Rope yoga-kennaranum mínum þessa mynd til að hengja upp á vegg í stúdíóinu. Þetta er svona helsta stellingin sem maður er í þegar það er stundað.

Þetta er ótrúlegt krútt!

c",)